lørdag 24. februar 2007

Vélsleðakreisíness

Ég fór sem sagt á vélsleðakúrsinn sem var haldinn fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á að keyra skrímslasleða með átta manna sleða í eftirdragi. Það var mjög gott veður, bjart og ekki nema um -10°C. Við fórum inn Adventdalen sem er inn af Longyearbyen og upp á Drönbreen og yfir í Reindalen sem mjög breiður dalur. Þaðan fórum við eftir Todalen og aftur yfir í Adventdalen og til baka að UNIS. Þessi ferð var um 100 km og á leiðinni gerðum við alls konar hundakúnstir til að prufa sleðana. Meðal annars var haldin keppni í því hver gæti komist með sem flesta farþega upp jökulinn. Ég held að metið hafi verið 7 manns sem er ágætt fyrir einn sleða að draga. Það gekk samt ekki fyrr en það voru settir 3 á yetann og restin í farþegasleðann. Þegar við komum upp á jökulinn sá ég sólina í fyrsta skipti síðan 5. janúar og það er ekki laust við að það hafi snert einhvern gleðistreng. Hún var svo aftur komin í hvarf eftir um hálftíma.

Ég er ekki frá því, eftir þetta vélsleðaævintýri, að finnskir ökumenn séu almennt tiltölulega brjálæðir. Þeir fara sennilega allir í ökuskóla Mr. Hakkinen. Í þessum kúrsi voru allir finnsku nemendurnir og ég held það sé óhætt að segja að þau hafi verið ansi hress.. Ég sat aftaná hjá einni finnsku stelpunni og eftir það var ég hálf skjálfandi á beinunum.

Mér tókst næstum að velta öllu draslinu þegar við vorum að gera beygjuæfingar. Ég keyrði í smá stund á einu skíði og svo náði ég að rétta hann af með því að færa allan líkamann yfir á aðra hliðina. Ég held meira að segja að finnsku stelpunni hafi ekkert litist á blikuna þá, en hún sat aftaná hjá mér.

Þegar ég kom aftur í UNIS þá fórum við Olli beint og keyptum okkur hjálma og svo að ná í nýja - gamla sleðann sem við keyptum okkur. Í dag fórum við svo og prufuðum hann. Ég var reyndar ennþá með harðsperrur dauðans frá gærdeginum en maður lætur sig nú hafa ýmislegt fyrir sleðana.. Við stálumst aðeins inn í Adventdalen þrátt fyrir að vera ekki með riffil og svo hérna upp að Longyearbreen. Maður verður nú að lifa á brúninni stundum.. eða eitthvað :p Hvað sem því líður þá reyndist sleðinn bara vel og er ekki ennþá dauður sem hlýtur að teljast jákvætt.

Brjálaðar vélsleðakveðjur,
Ragga

Ingen kommentarer: