onsdag 30. januar 2008

Snjór

Ekki mikið að frétta héðan annað en að Olli fór í atvinnuviðtal hjá Vann og avløp í dag. Alls voru 11 sem sóttu um og þar af 4 boðaðir í viðtal þannig að það er bara jákvætt. Það kemur svo í ljós eftir 2-3 vikur hver hreppir stöðuna.

Það er kominn töluvert mikill snjór núna og eru Tromsø-ingar allir með skóflur og sköfur á lofti og moka nótt sem nýtan dag. Það á jafnt við um börn og fullorðna, en þegar ég labbaði framhjá leikskólanum hérna í götunni í morgun voru litlu guttarnir að moka með míní útgáfur af skóflum.

Við settum inn nokkrar snjómyndir og er þetta allt á réttri leið hérna þótt ekki séu komnir 5 metrar eins og einhvern veturinn.

Kveðja,
Ragga

ps. ef þið viljið flissa aðeins þá getið þið horft á þetta.

lørdag 26. januar 2008

Að byggja, framhald 2.

Byggingarefnisþjófarnir náðust á föstudaginn. Löggan náði þeim á lagernum sínum út á Kvaleyju og handtók þá. Það þurfti margar ferðir með vörubíl til að flytja þýfið í burtu slíkt var magnið. Þarna var víst flest af því sem hefur verið stolið frá hinum ýmsu byggingarsvæðum í Tromsö síðustu mánuðina.

Ég setti inn örfáar myndir núna áðan, meðal annars nokkrar úr göngutúr í dag.

Kveðja
Olgeir

torsdag 24. januar 2008

Bíódísel

Biodiesel, hafa ekki margir heyrt um það. Meðal annars er hægt að nota gamla steikingarfeiti og fleira í framleiðsluna að ég held. Ég er nú ekkert voða mikið inn í þessu né gefið mér tíma til að lesa mér til um þetta. En í fréttunum í dag heyrði ég svolítið merkilegt. Til framleiðslu biodiesel er meðal annars notað mais og soyabaunir. Maisinn er ræktaður í Ameríku og aukin eftirspurn vegna biodiesel framleiðslu hefur hækkað á honum verðið. Þar af leiðandi hefur verið farið að flytja inn meira af soya til Ameríku og þar með aukið eftirspurn eftir soyabaunum auk þess sem þær eru líka notaðar til biodiesel framleiðslu. Eitt af ræktunarlöndum soyabauna er Brasilía. Þessi aukna eftirspurn hefur leitt til þess að bændur hafa rutt meir af regnskógum til að anna eftir spurn. Mér skildist á fréttinni að það væri mun meiri ,,útlosun" eða meira af gróðurhúsalofttegundum sem yrðu eftir við skógareyðinguna heldur en fengist með hreinni útblæstri frá biodiesel. Sem sagt hlutfallið verður óhagstæðara, gróðurhúsalofttegundunum í vil. Þetta hafði ég ekki hugsað út í og fannst merkilegt.

p.s. þið kannski kommentið ef þið vitið eitthvað um málið.

onsdag 23. januar 2008

Að byggja, framhald

Þetta hefur víst verið óskhyggja hjá mér er ég hélt að þjófnaðurinn af vinnusvæðinu okkar hætti. Í nótt var brotist inn í allar geymslurnar á blokk B-4 og 12 íbúðir. Geymslunum höfðu allir verktakar fengið úthlutað til að geta geymt verkfæri og íhluti til byggingarinnar innilæst. Stolið var helling af verkfærum útbúnaði sem átti eftir að setja í íbúðir og svo náttúrulega skemmdar allar geymsluhurðir. Þeir spenntu svo upp hurðir á 12 íbúðum sem voru fullkláraðar og tilbúnar til afhendingar í fyrstu viku febrúar.
Vaktin kom að þjófunum þegar þeir voru búnir að fylla í það minnsta einn sendibíl. Þeir lögðu á flótta með miklum hraði og keyrðu beinustu leið í gegnum 2m háa girðingu, sem er í kringum vinnusvæðið, og sluppu undan. En númerið og góð lýsing náðist af bílnum svo að vonandi nást þeir.
Það er nokkuð ljóst að þjófurinn er ekki að byggja einbýlishús, heldur í það minnsta blokk. Nema náttúrulega að hann eigi byggingavörurverslun við Eystrasaltið.

Kv. Olgeir

tirsdag 22. januar 2008

Að byggja

Það er einhver að byggja hér í Tromsö. Einhver sem tímir ekki að kaupa það sem til þarf. Sá hinn sami á sennilega sendibíl. Undanfarnar vikur hefur talsverðu verið stolið frá okkur í vinnunni. Nokkrum hitakútum, töluvert af rörum, sturtuklefum, ískápum, eldhúsinnrétingum og baðinnréttingum. En þeir byrjuðu samt á því að stela svolitlu af verkfærum, sem er eðlilegt í ljósi þess að þeir þurftu að skrúfa niður baðinnréttinguna. Þetta fer nú vonandi að lagast því að núna er allt orðið þræl girt og vaktað jafnt að nóttu sem degi.

Kveðja
Olgeir

søndag 20. januar 2008

Naglaskíði

Við skruppum í kaupfélagið á laugardaginn og keyptum okkur gönguskíði. Við fórum svo hér á gönguskíðabrautina í bakagarðinum í gær. Það gekk nú ekkert voðalega vel. Að vísu gekk heldur betur hjá mér enda er ég margfalt reyndari skíðamaður en Ragga. Ég hef nefnilega farið fjórum sinnum á skíði á æfinni en Ragga bara einu sinni. Við ætlum að fara aftur í kvöld, seint í kvöld, og prófa og vona að það gangi betur en í gær. Ætli það sé hægt að fá nelgd skíði, þessi eru alltof sleip.

Annars hefur helgin aðallega farið í 1000 púslu púsluspil sem slæddist hér inn á heimilið.

Kveðja
Olgeir

torsdag 17. januar 2008

Skrifstofa og tiff

Loksins fékk ég úthlutað skrifstofuplássi og var það mjög kærkomið. Þetta er ágætlega stór skrifstofa með plássi fyrir 5 nema en það sem af er hef ég verið ein um herlegheitin. Þessar tvær fyrstu vikur eftir jólafrí hafa að mestu farið í alls konar umsýslu, pantanir, viðtöl og óþolandi ákvarðanatökur. Af hverju þarf allt að vera svona ótrúlega flókið og langdregið.. Ég get til dæmis engan vegin ákveðið hvort ég eigi að fara á þessa ráðstefnu á Florida í mars. Ég var eiginlega alveg búin að ákveða að fara (en samt ekki búin að kaupa flug og hótel sem betur fer) þegar það kom svo í ljós að einn kúrsinn sem ég þarf að taka verður kenndur á sama tíma og ráðstefnan er. Hann átti að vera í febrúar en eitthvað hafa þeir breytt þessu. Bölvað vesen! Svona virðist ekkert passa saman þessa dagana.

Þessa vikuna er kvikmyndahátíð í gangi hérna í Tromsö eða Tromsö international film festival eins og hún er kölluð. Þetta er víst nyrsta kvikmyndahátíð í heimi segja gárungarnir. Fyrir algera tilviljun lenti ég á opnunarhátíðinni en þannig var að ég var á leið heim úr skólanum og þar sem ég var að bíða eftir strætó niðri í bæ sé ég hóp af fólki með kyndla og dót. Hún forvitna ég varð að athuga þetta nánar og á aðaltorginu reyndist vera búið að koma fyrir risastórum samatjöldum og einhverjir samar voru að kyrja samasöng í samabúningum. Þeir eru voða skrautlegir í skærum litum svo það fer ekkert á milli mála hverjir eru á ferð. Einnig voru þeir þarna með hreindýr og búið var að búa til risaskjá úr snjó. Á þennan skjá á svo að varpa stuttmyndum og einhverju sniðugu á meðan á hátíðinni stendur.

Annars er svo sem ekki meira fréttnæmt hérna úr norðrinu. Það er smá snjór og hangir í á milli -5 og 0°C þannig að það er svo sem ágætlega vetrarlegt. Við erum enn ekki farin að skoða skíði en það kemur að því. Norsararnir trúa því ekki þegar ég segist aldrei hafa stigið á skíði enda eru þeir skíðaóðir. Reyndar þá datt okkur í hug að það gæti verið sniðugt að eiga svona spark-sleða.


Held það væri tilvalið að fara í skólann á svoleiðis, bæði er hægt að komast yfir á heilmikilli ferð og læsa honum svo við hjólagrindurnar fyrir utan skólann :) Bara snilld.

Góðar stundir,
Ragga

onsdag 9. januar 2008

Púlsinn

Jæja núna er best að fara yfir síðustu vikur.

Viku fyrir jól kom Sunna í heimsókn til okkar. Það gekk ekki þrautalaust hjá henni að komast því að fluginu frá Íslandi til Oslo var frestað um rúman sólarhring vegna veðurs. Þar af leiðandi þurftum við að redda öðru flugi frá Oslo til Tromsö og á endanum komst hún til okkar í rigninguna.

21. desember fórum við svo heim til Íslands í jólafrí. Daginn áður en við fórum heim var mikil frostþoka yfir Oslo þannig að allt flug lá niðri. Við lenntum svo í leifunum af þessum seinkunnum og þurftum að bíða í fjóra tíma hér í Tromsö. Það slapp allt því að fluginu frá Oslo til Íslands var líka seinkað um fjóra tíma og heim komumst við á endanum. Já og okkur finnst leiðinlegt að fljúga, við erum alltaf að sannfærast betur um það.

Jólafríið var fínt og gaman að hitta fólkið sitt aðeins þótt að maður hafi nú ekki náð að kíkja á alla. Við gistum hjá mömmu og pabba upp í Fannafold og reyndum svo að deila okkur á milli eftir bestu getu. Þetta voru eiginlega mjög annasöm jól. Mikið um heimsóknir og matarboð og þvíumlíkt. Ég var búinn að ímynda mér að þetta yrði nú fín afslöppun þar sem maður væri bara á hótel mömmu. En ég held að ég hafi sjaldan verið jafn þreyttur, ég gerði samt ekki neitt að viti að því að mér fannst...og þó það var nú samt hellingur þegar maður hugsar til baka. Við flugum svo heim til Tromsö þriðja janúar á nýju ári. Túrinn heim gekk mjög vel og það var fínt að komast heim og í rútínuna aftur. Nú getur maður bara farið að telja niður í páskafrí, en það eru ekki nema 40 vinnudagar til páska :)

Hér á milli á sennilega að koma gleðilegt ár og takk fyrir það liðna.

Þegar við komum til baka til Tromsö uppgvötvuðum við hvað það er svakalega rólegt hérna, lítil umferð og frekar lítið stress. Enda erum við á landsbyggðinni.

Jólin hér í Tromsö voru víst meira eða minna svört, það er það sem við köllum rauð. Ég heyrði að það hafi aðeins gerst tvisvar áður síðustu 60 ár að það séu svört jól hér, vennjulega er ekki minna en 50cm snjór. En í gær snjóaði loksins ögn, eða svona um 35cm.

Ég fór í bílabúðina Biltema í fyrradag. Þetta er stór varahluta og aukahluta búð hér í Noregi. Ég gaf mér góðan tíma í að skoða verkfæri og varahluti og komst að þeirri niðurstöðu að bílarekstrar og dellu vörur eru töluvert ódýrari hér en á Íslandi. (Tromsö er afskekktari en Ísland að mínum mati). Hér getur maður fengið smurolíu líterinn á 23 nkr. Ég get sko alveg sætt mig við hátt mjólkurverð svo lengi sem ég fæ ódýra smurolíu !

Kveðja
Olgeir