lørdag 28. juli 2007

Tilkynningaskyldan

Af okkur er allt gott að frétta. Eða í raun ekkert að frétta.
Þetta fer nú óðum að syttast þessi dvöl hér í usa og ekki laust við að maður hlakki til að komast úr hitanum í þæginlega veðrið norðan við heimsskautsbaug.
Ég skellti inn nokkrum myndum frá síðustu dögum. Læt þær sjá um að útskýra hvað við höfum verið að bedrífa fyrir utan daglega amstrið.

Kveðja Olgeir

onsdag 18. juli 2007

Fréttir, nei engar fréttir

Hérna gengur lífið sinn vanagang.

Í dag er mígandi rigning með tilheyrandi þrumum og eldingum. Það er gott. Þrumurnar eru ansi kraftmiklar hér. Meðal annars sló niður eldingu milli skólahúsanna, þar sem Ragga er, í morgun. Það var víst ansi hressilegur hvellur, eða af styrkleikanum ,,ég hélt ég fengi hjartaáfall" að sögn Röggu.
En rigningin er góð og fékk ég mér fínan hjólatúr í henni í morgun enda var regngallinn með í för og rétt að nýta hann.

En best að segja aðeins frá síðustu dögum.

Á föstudagskvöldið fórum við til New London og röltum aðeins um þar. Þar var einhverslags bæjarhátíð með tilheyrandi mannfjölda, sölubásum og leiktækjum. Í raun er ekkert meira að segja um það.

Á laugardeginum fórum við í grillveislu til Lísu. Þetta var í raun afmæli fyrir Röggu. Við mættum um tvö leytið en það virðist vera tíminn sem fólk byrjar á svona veislum. Við grilluðum hamborgara og pulsur, átum osta og drukkum amerískan bjór sem er reyndar óþarflega skyldur vatni á bragðið. Þetta fór fram í garðinum við íbúðina hennar Lísu í úrvals veðri. Eftir grillið röltum við svo öll út í garð sem er hér rétt hjá og fylgdumst með flugeldasýningu. Sýningunni var skotið upp af prömmum á ánni sem er á milli Groton og New London. Þetta var mjög flott sýning og stóð í um hálftíma. Eftir þetta var svo farið til baka í veisluna og afmæliskaka borðuð.
Þetta var orðin frekar langur dagur og við vorum feigin að komast heim í restina.

Á sunnudeginum var Ragga að vinna en ég fékk mér hjólatúr um nágrennið. Meðal annars hjólaði ég meðfram kafbátasmiðjunni sem er hér í bænum. Sú smiðja er enginn smá smíði, ég hugsa að vegalengdin sem ég hjólaði framhjá girðingunni hafi verið um 2km. Ég tók engar myndir af þessu fyrirbæri þar sem girðingin var þétt setin skiltum sem gáfu það til kynna að maður yrði skotinn, hengdur og flengdur ef maður svo mikið sem sýndi sig með myndavél. Einnig hjólaði ég út að kafbátaherstöðinni sem er hér, en hún er svona í stærri kantinum. Þar var lítið að sjá því að allt er að sjálfsögðu innan girðinga.

Og svo líður bara vikan. Ragga í skólanum og ég í hjólatúr. Það er ágætis garður eða friðað svæði svona í hálftíma hjólafjarlægð héðan. Þar er fullt af ágætlega krefjandi, þröngum skógarstígum sem er gaman að hjóla. Ég reyndar fór aðeins yfir þolmörk hjólsins í gær sem endaði með að það slitnaði teinn í afturgjörð, enda voru átökin ágæt. Nú þarf maður að fara aðeins blíðlegar með það til að það endist manni sem farartæki. Já og að maður geti skilað því í nothæfu ástandi.

Ég læt þetta nægja í bili. Ég set inn nokkrar myndir.
Kveðja Olgeir

fredag 13. juli 2007

Afmæli

Ragga á afmæli í dag :) Til hamingju með það :)

Í kvöld ætlum við á bæjarhátíð í New London.
Annað kvöld verður svo grillveisla hjá Lísu, sem er að hjálpa Röggu í verkefninu. Þetta er svona í og með afmælisveisla Röggu.

Lítið að frétta af mér hinsvegar. Ég uppgvötvaði það í gærkvöldi að ég hjóla sennilega ekki á ríflegum ljóshraða. Sólin hafði náð kálfunum á mér og grillað þá hressilega. Einhverra hluta vegna hafði mér ekki hugkvæmst að bera sólaráburð á kálfana, bar einungis á sköflunga og hné.

Kveðja Olgeir

Daglegt líf í Groton

Olli setti inn myndir áðan frá hjólatúrnum sem hann fór í dag til Mystic. Það er lítill bær hérna rétt hjá (um 10 km austar) sem hefur það fram yfir Groton að hafa miðbæ. Endilega kíkja á það. Ég þarf svo að taka með mér myndavél á labbann svo ég geti sýnt ykkur hvað ég er að bardúsa á daginn. Það er kannski ekki alveg jafn spennandi og það sem Olli er að gera en nógu spennandi samt..fyrir suma :p

Í gær fórum við í bíó að sjá Harry Potter myndina nýju. Hún var bara ágæt þótt bókin sé auðvitað mikið skemmtilegri. Annars var að smá upplifun að fara í amrískt bíó. Á undan voru auglýsingar eins og gengur og gerist nema hérna voru auglýsingar frá flug- og sjóhernum þar sem hernaður var látinn líta út fyrir að vera ótrúlega ævintýralegur og skemmtilegur. Merkilegt.. sér staklega þar sem við allar opinberar byggingar er flaggað í hálfa stöng heilu vikurnar vegna hermanna sem hafa látist í Írak nýlega.

Svo eru það afmælistilkynningarnar... nóg af þeim þessa dagana.

Í gær (11.) átti Hanna Sigga móðursystir afmæli og í dag (12.) á Elva Pallakona (hvað kallast svona fjölskyldutengsl?) afmæli.

Til hamingju með það :)

Á morgun er svo aðalafmælið þ.e. mitt :D

Kveðja,
Ragga

onsdag 11. juli 2007

Við erum góð

eða í það minnsta finnst skordýrum svæðisins við vera bragðgóð og auðveld bráð. En við höfum gert ráðstafanir og keypt okkur bráðhollt skordýraeitur sem við gluðum yfir okkur kvölds og morgna.

Annars er nú heldur lítið að frétta hér. Ragga er í skólanum og ég fæ mér hjólatúra og les bækur. Mikið einfaldara getur lífið ekki orðið.

Annars er Ameríka ábyggilega ágæt, allavegana hér. Ég gæti í það minnsta alveg sætt mig við eitt af einbýlishúsunum hér, stórar lóðir, mjög stórir bílskúrar og stór bílastæði þar sem ekkert virðist vera athugavert við að eiga svona einsog þrjár kynslóðir af bílum. Þetta eru lang mest einbýlishús hér, ekkert endilega mjög stór hús, en á stórum lóðum. Þetta gerir það að verkum að bærinn flæmist yfir stórt svæði og vegalengdir verða langar. Mér dauðlangar að taka myndir heim að mörgum þessara húsa og af bílunum í stæðunum en ég kann ekki við það, það er ekki gott að segja hvernig fólk tæki því.

Síðasta sunnudag fórum við í göngutúr með vinnufélögum Röggu. Við keyrðum að vatni sem er, að ég held, örlítið hér norðan við og tókum ágætan göngutúr þaðan. Það var ágætt. Gaman að sjá alla landamerkjagarðana sem hlykkjast um allt. Maður heldur að maður sé að ganga í villtum skóg en það er víst ekki. Allt þetta land hér hefur verið rutt einusinni til tvisvar og stundaður á því landbúnaður. Sennilega fyrst rutt uppúr 1700. Um leið og hætt er að stunda landbúnað tekur skógurinn yfirhöndina. Það er fínt að labba í skóg, skuggi og svona, nema að einu leiti, maður sér ekkert, getur ekki fengið neina yfirsýn að ráði, eitthvað sem ég gleymi alltaf í skógleysi norðurhjarans. Við vatnið sem við lögðum bílnum sá maður vel græjufíkn landans. Þar kom hver pallbíllinn á fætur öðrum með bát eða vatnasleða á pallinum.

Pallbílar, hér eiga allir pallbíla. Ekkert endilega stærstu og sverustu gerð eins og oft virðist vera lenskan á Íslandi. Hérna eru allar hugsanlegar gerðir, mikið af nettum eindrifa bílum og á öllum hugsanlegum aldri. Maður sér ekkert mikið af gömlum fólksbílum en mikið af gömlum pallbílum. Væri alveg til í að eiga svona eins og nokkra.

Umferðarmenningin virðist vera ágætt. Það er allavegana ekkert mál að hjóla þótt maður þurfi að vera á götunum af og til. Það er tekið ótrúlega mikið tillit til manns. Töluvert meira en maður á að venjast. Umferðin er frekar afslöppuð og lítið um sjánlegan hraðakstur.

En best að láta þetta nægja í bili um Ameríkuna.

Svo er það afmæli dagsins.
Ef minnið bregst mér ekki þá á hún Dísa frænka mín afmæli í dag, 17 ára stelpan, til hamingju með það og farðu varlega í umferðinni :)

Kveðja Olgeir

søndag 8. juli 2007

07.07.07

Í dag var okkur boðið í grillveislu hjá einum sem vinnur á rannsóknarstofunni hjá Lauren. Hann býr næstum út í sveit eða er alltént með stóra lóð þar sem hann hefur 2 hesta, 2 asna, 3 hunda, slatta af hænsum og kött. Hann bauð öllum í grill þar sem honum hafði áskotnast grís sem hann svo heilgrillaði.

Þetta var ljómandi skemmtilegt að sjá og mjög notaleg stemning. Myndir má sjá í myndaalbúminu.

Kveðja,
Ragga

fredag 6. juli 2007

Myndir

Ég setti inn nokkrar myndir, látum gæðin liggja milli hluta.

Annars er allt fremur tíðinda lítið. Á meðan Ragga er í skólanum hjóla ég um bæinn og nærliggjandi sveitir. Keypti mér fína kortabók, svona til að rata heim og svo er ég með reiðhjól í láni. Það er enginn græja, en virkar ágætlega eftir örlitla aðlögunar meðferð með eins dollars skiptilykli. Hér er ágætt að hjóla, frekkar slétt allt saman. Verst að maður þarf stundum að vera á götunum þar sem ekki er mikið um stíga eða stéttir en það er tekið ágætis tillit til manns.

Kveðja Olgeir

Þrumuveður

Núna er þrumuveður. Fyrst heyrðum við þrumur í fjarska og svo var eins og væri skrúfað frá krana, stórum krana, hef sjaldan eða aldrei séð svona mikla rigningu. Enda er allt stórt og mikið í Ameríku... nema kannski gangstéttirnar.

Kveðja Olgeir

torsdag 5. juli 2007

Þjóðhátíðardagurinn 4.júlí

Þá erum við búin að upplifa bæði þjóðhátíardag Norðmanna og Kanamanna. Það er óhætt að segja að Norðmennirnir taki daginn sinn heldur hátíðlegri heldur en Bandaríkjamennirnir. Okkur var boðið í garðpartý með stelpunni sem við leigjum hjá. Veislan var haldin í einbýlishúsi á stærð við hótel með garði á stærð við ágætis sumarbústaðalóð. Boðið var upp á grillmat og alls konar góðgæti. Mest var þetta fólk sem vinnur á rannsóknarstofunum í sjávarlíffræðihluta háskólans.

En til að byrja á byrjuninni þá flugum við hingað yfir á mánudaginn. Við fórum frá Tromsö um 7 leytið um morguninn og flugum til Osló þar sem við biðum í 6 tíma. Þá flugum við yfir til Íslands þar sem við biðum í 2 tíma. Það var mjög furðulegt að koma heim og fara strax aftur..hálf glatað.. en þannig er það nú bara. Þá tók við næstum 6 tíma flug yfir til Boston. Vegabréfaeftirlitið var ekki nærri eins strangt og við vorum búin að ímynda okkur og voru karlarnir bara kammó. Frá flugvellinum tókum við leigubíl á hótelið sem reyndist vera bara mjög fínt hótel eftir allt saman. Það var ótrúlega gott að sofna eftir um 22 tíma ferðalag. Daginn eftir tókum við svo leigubíl á South Station þar sem við tókum Greyhound rútu til New London. Það var um 3 tíma ferð og sá maður svo sem ekki mikið fyrir trjám nema í borgunum. Við fórum í gegnum Providence og einhverja smábæi. Svo þegar við síst bjuggumst við, í miðju skógarþykkninu, komum við að risastóru spilavíti .. og svo öðru aðeins lengra í burtu ekki síður stóru sem á að opna nú í sumar. Þar fóru flestir farþegarnir út. Þessi spiavíti eru víst þau stærstu í landinu fyrir utan Las Vegas.

Þegar við komum til New London vorum við sótt af stelpunni sem við leigjum af. Hún heitir Lauren og er phd nemi við UConn háskólann. Íbúðin er í 4 íbúða húsi og það eru geðveikislega þykk teppi á henni allri. Við erum með eitt herbergi sem er ágætlega rúmgott. Ísskápurinn og eldavélin eru í algerri yfirstærð eins og allt í þessu landi.

Við fórum að versla í gær þar sem allt er lokað í dag. Búðin er í minni kantinum á usa mælikvarða en við týndumst strax. Olli villtis í grænmetisdeildinni á meðan ég tapaði mér í kökulagernum og ostadeildinni. Við eigum algerlega eftir að rannsaka ísdeildina en hún virtist heldur stærri en Svalbardbutikken..í heild.

Í þessu landi er ekki gert ráð fyrir að fólk fari neitt labbandi og varla hjólandi. Í Groton eru varla neinstaðar gangstéttar og það er enginn eiginlegur miðbær. Þar sem miðbærinn ætti að vera er kafbátasmiðja og þyrluverkstæði. Einnig er gólfvöllur í miðjunni á byggðinni. Einbýlishúsin eru alls ráðandi og eru þau stór með stórum lóðum. Víðast hvar leynast líka gamlir bílar inn á milli sem eru að freista Olla doldið.

Háskólasvæðið er niður við sjó. Það er nokkuð stórt og samanstendur af eiginlega alveg nýjum byggingum og byggingum frá hernum sem voru byggð um 1930-1940. Við kíktum aðeins inn í rannsóknastofubyggingarnar þar sem við vorum að leita að kæliboxum og ís fyrir veisluna. Þeir eru með sér byggingu fyrir tilraunir sem nota ferskan sjó og sýndi Lauren okkur möttuldýrin sem hún er að vinna með.

Á morgun fer ég svo í fyrsta skiptið í vinnuna. Það verður eitthvað fróðlegt :p

Olli tók nokkrar myndir og við reynum að setja þær inn fljótlega.

Svo eru það afmælisbörnin þessa dagana:

Afi Karl hefði orðið 100 ára þann 2. júlí
Pabbi átti afmæli í gær þann 3. júlí
og Guðbjörg á svo afmæli í dag 4. júlí

Til hamingju með það :)

Annars bara bless í bili frá risalandinu,
kv
Ragga og Olli