torsdag 25. september 2008

Í fyrrakvöld fórum við Olli í kvöldgöngu í skóginum eins og svo oft áður. Mætti okkur þá gríðarstór froskur, eða alveg 15 cm flykki. Ég hafði ekki hugmynd um að þeir lifðu svona norðarlega. Kannski var þetta ævintýraprins í álögum. Hver veit!?!

Í morgun var snjór niður í miðjar hlíðar allt í kringum okkur og frostskæni á pollum. Held meira að segja að það sé spáð snjókomu í næstu viku. Sennilega er haustið þá bara búið, stutt gaman það.

Kv,
Ragga

torsdag 18. september 2008

Það er ekki seinna vænna en að setja link hérna inná bumbumyndasíðuna okkar (svona þar sem þessi meðganga er nú alveg að klárast!). Þá sem langar að kíkja geta sent okkur póst til að fá aðgangsorðið.

Bumbumyndir

Annars er bara mest lítið að frétta. Haustið skartar sínu fegursta þessa dagana og nú getur maður farið að sjá norðurljósin aftur :)



Ha det godt,
Ragga og Olli

torsdag 11. september 2008

Svea

Ég setti inn myndir frá Svea. Þær eru reyndar teknar á gömlu litlu vélina okkar þannig að þær eru frekar óskýrar, en það er nú auka atriði.
Kv. Olgeir

tirsdag 9. september 2008

Til baka

Jæja, ég komst heim frá Svalbarða á hentugum tíma. Allt útlit var fyrir að við þyrftum að eyða viku á barnum í Longyearbyen þar sem ekki fékkst flug fyrir okkur heim fyrr en 12. september. Við ákváðum samt að gera heiðarlega tilraun síðasta föstudag og mættum við innritunarborðið í Longyearbyen hálftíma fyrir opnun og skráðum okkur á biðlista. Heppnin var með okkur og fengum við að fljóta með til Tromsö. Það var ljúft að komast heim eftir tvær vikur og losna við kolarykið, frostlögsklístrið og díselolíu ilminn. Við vorum semsagt að byggja við forhitunarstöð fyrir kolanámuna í Svea, Svea nord. Settum upp 1,6MW ketil, hitaeliment og blásara sem blæs 70000m3/klst. Fyrir er varmi upp á 4,4MW og blásarar upp á 140000m3/klst. Um 50°C heitu lofti er svo blásið inn í námugöngin til að halda hita á mannskap og vélum. Þetta gekk fínt og virkar vonandi allt.
Veðrið á Svalbarða var frábært, um 4-6°C hiti á daginn og sól flesta dagana. Mjög fallegt og gaman að sjá þetta á þessum árstíma líka. Fjöllin í Svea hafa svo skemmtilegan lit í sólinni, gulgrárauðleitt, get ekki alveg lýst því en það er góð stemning sem myndast við þessa birtu.
Það var mjög mikið af ref á ferðinni í Svea núna og komu þeir reglulega að kíkja á mann. Sennilega hafa þeir komist upp á lag með að sníkja mat hjá einhverjum og athuga því allar manneskjur á svæðinu.
Svo var merkilegt hvað birtan minnkaði mikið á þessum tveimur vikum, frá því að vera bjart alla nóttina niður í myrkur 1-2 tíma, gerðist ótrúlega hratt.
Læt þetta nægja í bili og set svo inn nokkrar myndir á morgun.
Kv. Olgeir

onsdag 3. september 2008

Haust

Þá eru haustrigningarnar byrjaðar og æ fleiri gul laufblöð eru sjánleg á hverjum degi. Ég tók eftir því seinni partinn að Tromsdalstindurinn var alhvítur niður í miðjar hlíðar. Það ætti nú ekki að öllu jöfnu að fara fram hjá manni á morgnana en sennilega er ég með hugann við eitthvað annað...

Olli er enn á Svalbarða og verður kannski fram yfir helgi. Hann á reyndar ekki pantað flug heim fyrr en 15. september (þökk sé hinum ofur skipulögðu og rökrétt þenkjandi yfirmönnum) en sennilega kemst hann samt heim fyrir þann tíma. Í versta falli yrði hann að húkka sér far með gámaflutningaskipi. Eða kannski ekki versta falli. Það er auðvitað mikið betra að ferðast með skipum heldur en flugvélum finnst mér.

Ha det godt,
Ragga