onsdag 30. mai 2007

Olli heppni aparass

Olli var að hringja í mig rétt í þessu til að monta sig yfir því að hafa séð ísbjörn. Þegar hann var rétt kominn úr mat áðan þá barst sá orðrómur um matsalinn að það gæti verið sniðugt að fara í smá bíltúr út að höfn. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að allir þurstu út og brunuðu á seinna hundraðinu út á Kapp Amsterdam. Þaðan var hægt að sjá bjössa bíða við vök í svona um 150 metra fjarlægð. Hann var ekki mikið að kippa sér upp við allt fólkið sem góndi á hann heldur geyspaði bara og beið eftir næsta sel.

Ég verð bara að sætta mig við að sjá myndir af herlegheitunum. Ég get þó sagst hafa séð ísbjörn með góðri samvisku því ég man ekki betur en ég hafi séð ísbjörninn sem var í Sædýrasafninu sem var og hét :p

Annars bara bla..

kv
Ragga

mandag 28. mai 2007

Myndir

Við settum inn nokkrar myndir frá Barentsburgarferðinni. Endilega kíkja á þær :)

Annars er það helst að frétta að veturinn er kominn aftur. Það er búið að snjóa meira eða minna síðustu 24 tímana. Sem betur fer hefur þó ekki mikið safnast fyrir.

Í gærkvöldi fórum við í smá miðnæturgöngutúr upp í hlíðar Plateufjellet. Þar fundum við drjúgan slatta af steingervingum merkilegt nokk. Gaman að því.

Kveðja,
Ragga og Olli

søndag 27. mai 2007

Samfélagið

Jæja best að blogga smá.
Nú eru flestir Unis stúdentarnir sem við höfum umgengist að fara. Í gærkvöldi vorum við í kveðjuveislu í bragga fjögur þar sem Karlotta býr eða bjó. Þetta var fín kökuveisla sem endaði á að flestir fóru út að spila krikket og hafnarbolta. Það er svolítið sérstakt þegar fólk er að fara, þessum Svalbarðakafla fer senn að ljúka.

Þetta er svolítið sérstakt samfélag hérna á Svalbarða. Ragga telur það karllægt, sem er sennilega rétt. En fyrst og fremst held ég að það sé vélvætt allavegana hjá innfæddum. Hér eiga að sjálfsögðu allir vélsleða eins og ég hef oft minnst á. Einnig eru ótrúlega mörg mótorhjól og skellinöðrur hér. Ragga telur að mótorhjóla eignin sé engöngu af praktískum ástæðum, það er til að menn geti notað hjálmana sína allt árið. Hér eru börn alin upp í mótorsamfélagi. Á veturnar renna krakkar sér á sleðum sem hafa útlit vélsleða. Aðal vetrarsportið er að láta foreldrana draga sig með vélsleða á skíðum eða sleða. Núna eru allir krakkar komnir á reiðhjól og stunda stíft prjón og stökk æfingar á planinu við búðina, og eru bara nokkuð góð að prjóna. Við barna og unglingaskólann er sérstkakt skilti sem vísar á stæði fyrir skellinöðrur og mótorhjól. Á Íslandi hefði engöngu verið sett upp skilti sem bannaði skellinöðrur og mótorhjól.
Ég er kominn með vott af mótorhjóladellu. Ég er ekki viss um hvort þetta er þessi árlega vordella eða hvort hún risti dýpra. Í ár eru tíu ár síðan ég átti síðast mótorhjól. Það gæti verið gaman að halda upp á það með því að kaupa sér eins og eitt BMW ferðahjól, svona malbiks og malarvega hjól. Sá eitt auglýst hérna um daginn á fínu verði....
Næsta vika verður sennilega síðasta vikan mín í vinnu hér á Svalbarða og ég mun að öllum líkindum eyða henni í Svea samkvæmt venju. Ég hafði látið hvarfla að mér að vinna eina viku til en verkefnastaðan er víst ekkert alltof góð hér í Longyearbyen og ég er ekki tilbúinn að vera í Svea fram á síðasta dag. Auk þess er ég ekkert mjög spenntur fyrir ilmandi klóakverkefnum.

En jæja núna er best að fá sér göngutúr eða að lesa mótorhjólablað.

Kveðja Olgeir

søndag 20. mai 2007

19.maí Barentsburg

Við fórum til Barentsburg með bát núna á laugardaginn. Við lögðum af stað frá Longyearbyen klukkann níu um morguninn og komum til baka um kvöldmatarleytið. Þetta var að mörgu leyti ágætis túr, að vísu hefði veðrið mátt vera aðeins betra. Báturinn sem við fórum á var 27m langur stálbátur frá 1954 og heitir MS Langöysund. Ágætt skip nema það gekk alltof hægt. Við byrjuðum á að fara út og yfir Ísfjörðinn og sigldum þar upp að skriðjökli sem kemur fram í sjóinn. Þar sigldum við aðeins inn í hafís sem var svolítið sérstakt. Upp á ísnum lág rostungur, við komumst að vísu bara í kíkisfæri við hann en það var samt flott að sjá hann. Svo var planið að koma hundamat í land þarna en það gekk ekki vegna ís. Upp á landi sá maður fjóra hundasleða, hunda og tjaldbúðir. Svo var grillað um borð og stefnan tekin á Barentsburg. Við komum til Barentsburg um klukkan tvö og höfðum því bara eina og hálfa stund þar sem var allt of lítið. Við höfðum rússneska leiðsögumenn sem sýndu okkur bæinn og fræddu. Í lokinn gátum við svo rétt komist á safnið og mynjagripabúðina. Alltaf uppgvötvar maður eitthvað nýtt um Barentsburg. Barentsburg var svo til sjálfbær bær á tímabili. Þar var kúabú, svínabú og gróðurhús sem sá þeim fyrir matvælum. Núna er bara svínabú með um 100 svín.
Á heimleiðinni var svo siglt meðfram ströndinni og hún skoðuð.
Við tókum ekki nema 315 myndir, við erum ekki búinn að velja úr ennþá en það kemur.

Kv. Olgeir

17. maí

17. maí er þjóðhátíðardagur Norðmanna. Fyrst vöknuðum klukkann sjö við trumbuslátt. Ég leit út um gluggann og sá mann marsera niður götuna og slá takt. Þetta var til að vekja í fyrstu hátíðarhöld dagsins. Klukkann hálftíu vöknuðum við aftur og þá við blástur lúðrasveitar Store Norsk. Þeir spiluðu það lengi hér í Nybyen að maður komst ekki hjá því að vakna og gera sig kláran í skrúðgöngu. Rétt fyrir ellefu vorum við svo farinn að marsera í þeirri lengstu skrúðgöngu sem ég hef séð. Það hefur ábyggilega verið megin þorri landsmanna í henni. Allir voru mjög fínt klæddir, karlar í jakkafötum og konur í þjóðbúningum. Dagurinn virtist vera tekinn mjög hátíðlega miðað við klæðaburð. Eftir skrúðgönguna var svo kaffi og kökur fyrir alla í íþróttahúsinu.

Kv. Olgeir

16. maí

Að kvöldi 16. maí var grillveisla í vinnunni hjá mér. Hún var ágæt og lærðum við það helst á henni að ef maður drekkur of mikið úr klósettinu á þá hlýtur maður þynnku að launum. Verkstæðinu var breytt í veislusal. Þar var slegið upp langborði út brettum og krossviði. Á miðju borðinu var svo klósett sem blönduð var í bolla. Að sögn var klósettið ónotað. Bollan var blönduð í vatnskassann og útbúinn krani á inntakið, þar tappaði maður á glösin. Ísinn var svo hafður í skálinni og mokað í glösinn með vatnslás af vaski. Ég set inn mynd af fyrirbærinu við tækifæri.
Annars fór grillið vel fram og maturinn var fínn. Maður náði að spjalla ágætlega við fólkið og meðal annars sýndi verkstjórinn minn mér Triumph mótorhjól sem hann á. Þetta er nýtt hjól en í gömlum stíl, enduro stíl og 900cc flott græja.

Kv. Olgeir

mandag 14. mai 2007

Þoka

Ég hef ekki komist til Svea ennþá vegna þoku. Hugsanlega verður hægt að fljúga í kvöld en ég vona eiginlega ekki svo maður nái einni nótt í viðbót hér heima :)

Núna á miðvikudagskvöldið er fyrir hugað að hafa grillveislu í vinnunni hjá mér. Miðvikudagurinn er dagurinn fyrir 17. maí sem er þjóðhátíðardagur Norðmanna og þá er frí. Ég var því settur í það í dag að þrífa verkstæðið hátt og lágt svo það yrði grill hæft.

Í morgun sá ég gæsahóp sem sennilega var ný kominn. Þetta eru fyrstu gæsirnar sem ég sé hér í Longyearbyen en áður hafði ég séð eina flækingsgæs í Svea.

Bless í bili Olgeir

søndag 13. mai 2007

Nokkur orð

um Norðmenn.

Brúnosturinn er heilagur hjá Norðmönnum, það má eingöngu borða hann eintóman eða með sultu ofaná brauð. Ég hef nokkrum sinnum fengið nokkuð hvassar athugasemdir í mötuneytinu í Svea þegar ég hef notað brúnostinn með spægipylsu, salati, gúrkum eða hverju sem er. Þar af leiðandi geri ég í því að borða brúnost með öllu hugsanlegu.

Ansi margir hafa komið til Íslands og byrja oftast á að minnast á það að þeir hafi ekki getað keypt ,,snús" þar það er munntóbakk Íslandi.

Flest allir Norðmenn hafa séð kvikmyndina 101 Reykjavík og minnast á það glottandi að fyrra bragði.

En nóg um Norðmenn í bili.

Ég er farinn að leita mér að vinnu í Tromsö. Ég sendi eina umsókn áðan til SAS, þeim vantar viðgerðamann á flugvöllinn í Tromsö. Gaman að sjá hvað kemur út úr því. Ég ætla að reyna að finna mér vélvirkja starf, ef það gengur ekki reynir maður við pípulagnir, það vanntar víst mikinn mannskap í lagnavinnu á svæðinu.

Annars er lítið að frétta. Síðasta vika var óvennju skemmtileg og fljót að líða. Á föstudaginn fór ég svo á smá námskeið hér í Longyearbyen. Þannig að þetta hefur verið frekar löng helgi, þannig séð. En svo er það aftur Svea á morgun. Það fer nú að sjá fyrir endann á þessari vinnu, ég vinn sennilega bara út maí og hætti þá kannski viku lengur.

Nú er hitinn aðeins farinn að stíga upp fyrir frostmarkið og aðalvegurinn orðinn klakalaus. Það er rosa munur að labba á malbiki en ekki klaka. Maður er orðinn svo stífur á að labba á klaka í fjóra mánuði.

Kveðja Olgeir

onsdag 9. mai 2007

R/V Jan Mayen

Þá er ég búin að prufa að fara smá túr á Jan Mayen. Við fórum út á mánudags- og þriðjudagsmorguninn með hóp af stúdentum og tókum sýni í Isfjorden. Kúrsinn er þverfaglegur og voru krakkar úr eðlisfræði og jarðeðlisfræði á meðal líffræðistúdentanna. Það tók doldið á að kenna þeim sem ekki voru með líffræðilegan bakgrunn því þá þurfti að útskýra hluti eins og flokkunarkerfið almennt og allt eftir því. En það var bara gaman og lærdómsríkt svo er líka alltaf gaman að pretika að dýrasvif sé það merkilegasta í heimi :p

Við fengum fínt veður en það var samt hluti af stúdentunum sem varð sjóveikur. Það er ekkert grín að sitja við smásjá í veltingi og greina magainnihald :p Lyktin hjálpar í það minnsta ekki.

Nóttin á milli kennsludaganna kom Claudia um borð og við tókum dýrasvifssýni í Billefjorden. Það var því ekki mikið um svefn. Vorblóminn er byrjaður eins og við fengum að finna fyrir. Yfirborðssýnin voru algerlega græn og það tók óratíma að hreinsa þau. Algert pain! Og ef það er eitthvað sem lyktar illa þá eru það þörungar :p

Túrinn var líka fín norskuæfing þar sem áhöfnin talaði bara norsku við mig og ég neyddist til að gera slíkt hið sama. Það er fáránlegt hvað það er mis-erfitt að skilja fólk eftir því hvaðan það er í Noregi.

Dagurinn í dag fór svo í smá panikk. Vegna misskilnings hélt ég að ég hefði notað vitlaust alkóhól á sýnin mín og þau væru öll ónýt. Þá er ég að tala um öll sýnin sem ég hef tekið yfir höfuð. Eins og gefur að skilja fékk ég vægt áfall.. eða ekki vægt.. En eftir að hafa talað við framleiðandann þá komst það á hreint að þetta var rétt efni. Hjúkk segi ég nú bara.

Kveðja,
Ragga

lørdag 5. mai 2007

Flugvélinn

Skíðaflugvélin sem ég hef áður minnst á er af gerðinni Basler BT-67 Turbo-67. Hún virðist einnig kölluð Turboprop DC-3. Þessi vél er frá kanadíska flugfélaginu Kenn Borek Air. Þessi skíðaútbúnaður er svolítið flottur. Skíðin ganga upp með hjólunum þannig að hún getur jafnt lennt á venjulegri flugbraut sem og snjó.

Kveðja Olgeir

fredag 4. mai 2007

ooog thad var helst i frettum..

..ad sledinn er formlega seldur. Karlinn kom og nadi i hann i gær og borgadi.

..Olli kemst ekki heim i dag eins og aætlad var vegna vedurs. Thad er bædi hvasst og snjokoma og thad er rett eins og veturinn se ad koma aftur.

..Vid førum fra Longyearbyen 25.juni og verdum i Tromsø fram til 2. juli thegar vid førum vestur um haf. Vid verdum svo i stora landinu til 8. agust.

..adan flutti eg 500 kg af hundamat ut i kofa vid flugvøllin, ad "hundagardinum" og upp i Nybyen a eldgømlu Volkswagen rugbraudi. Gaman ad thvi.

Annad var thad nu ekki i bili
kv
Ragga

tirsdag 1. mai 2007

Sleðinn er seldur

Héðan er svo sem lítið að frétta. Ég útbjó auglýsingu fyrir vélsleðann og hengdi upp í búðinni og Unis í gær. Ég átti nú ekki von á miklum viðbrögðum þar sem sleðatímabilinu fer nú að ljúka. En það kom einn og skoðaði sleðann áðan og keypti hann, þannig að það gekk fljótt fyrir sig. Já svo er nátturulega bara að vona að hann standi við þetta og komi og borgi og sæki sleðann á morgunn.

Ég var í Svea í síðustu viku og fer aftur í fyrramálið. Náði fjórum dögum hér í Longyearbyen núna sem er bara nokkuð gott. Um næstu helgi kem ég svo sennilega ekki heim heldur hitti Röggu og fleirri í skála rétt við Svea og eyði helginni þar. Það verður fínt. Af þessu tilefni fjárfesti ég í svefnpoka í gær. Þetta þýðir að ég kem sennilega ekki aftur í siðmenninguna fyrr en fimmtudaginn 10. maí. Föstudaginn 11. maí er ég svo búinn að skrá mig á smá námskeið til að fá leyfi til ,,varme arbeider" sem sagt leyfi til að vinna með eld, þ.e. suðu og gas, í húsum. Svona til að vera löglegur ef maður kveikir í. Það er víst krafa í Noregi að hafa farið á svona námskeið og hafa sérstakt númer.

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ísbjörn á vappinu í Svea. Hann var því miður farinn á mánudaginn er ég mætti með myndavélina. En ég náði myndum af fótsporunum hans. Þessi björn ætlaði að ná sér í einfalda máltíð og sat um sorpurðunnarsvæðið í Svea. Ég set inn mynd af sporunum á eftir.

Um daginn sagði ég frá skíðaflugvél sem ég sá á flugvellinum hér. Ég náði myndum af henni og set þær inn á eftir. Ef einhver veit hvaða tegund þetta er væri gaman að frétta af því.

Læt þetta nægja í bili

Kveðja Olgeir
Afmælisbarn dagsins i dag er Karen krulla :) Til lukku med daginn.

Klem og knus
Ragga