onsdag 31. oktober 2007

Skattmann

Norska kerfið er kannski ekki sem verst. Í gær frétti ég að fyrir nóvember mánuð borgar maður bara hálfan skatt af laununum sínum. Ekki sem verst það. Og svo skemmtilega ,, vill til" að við þurfum að vinna töluvert mikla yfirvinnu í nóvember. Þetta er víst einskonar jólagjöf frá ríkinu, en Norðmenn segja að þetta sé svo þeir hafi efni á jólagjöfunum.

Ragga er að að fara að halda fyrirlestur á norsku á morgun, smá stress ,, men det går bra"

Í dag er haldið upp á Halloween (eða ,,halló vín" á góðri íslensku) hér í Noregi og því allt morandi í krökkum í allskyns búningum.

Annars er bara allt gott að frétta héðan.

Kveðja Olgeir

søndag 28. oktober 2007

Þurr dagur

Aldrei þessu vant var síðasti föstudagur án rigningar, en þetta er fyrsti þurri dagurinn í langan tíma að því er mér finnst. Það var sól og um 10°c hiti. Í tilefni af þessum einstaka atburði hafði ég upp á bílaþvottaplani hér í Tromsö og skolaði af vollanum. Er heim var komið bónuðum við kaggann og kom þá í ljós þessi fíni blóðrauði litur.

Laugardeginum eyddi ég í vinnu og Ragga í lærdóm þannig að þessi helgi hefur verið frekar viðburðarsnauð eins og reyndar öll síðasta vika. Bara hið almenna brauðstrit.
Reyndar fórum við í pönnukökuveislu á miðvikudagskvöld til hennar Sveu sem er í skólanum með Röggu. Það var ljómandi fínt. Þar hitti ég hann Egil sem var á Svalbarða á sama tíma og við. Hann náði níu rjúpum á einum degi nú um daginn. Hér er rjúpnaveiði tímabilið frá 10. september til 15. mars. Einnig frétti ég hvernig ég á að bera mig að við að fá veiðileyfi hér. Maður verður að kíkja á það.
Reyndar rifjast það upp fyrir mér þegar ég fer að rifja upp þessa viðburðarsnauðu viku að kannski var hún ekki svo fábrotinn. Því að um síðustu helgi keyrðum við svolítið hér um nágrennið. Á laugardeginum keyrði ég til Hansnes sem er bær á Ringvassöya sem er næsta eyja norðan við Kvalöy. Þetta var um 130km skrepp. Eyjarnar eru ýmist tengdar saman á brúm eða göngum. Það er ansi gaman að keyra hérna um strjálbýlið. Mikið af gömlum húsum og síðast en ekki síst mjög mikið af gömlum bílum og vélum sem hafa fengið að vera í friði fyrir hinum alræmdu hreinsunarátökum sem eiga það til tröllríða öllu.
Á sunnudeginu fengum við Ragga okkur svo bíltúr út á Håköy sem er hér á milli Tromsö og Kvalöy. Þar var margt að sjá, hross af ýmsum gerðum með meiru. Fyrir utan Håköy liggur flak af þýska herskipinu Tirpitz sem var sökt 12. nóvember 1944. Hér má lesa meira um Tirpitz.

Síðustu nótt var klukkunni breytt hér í Noregi og núna er kominn vetrartími, þannig að nú munar bara einum tíma á okkur og Íslandi. Þetta er ágætt að ýmsu leyti, maður fær einn tíma í auka svefn í fyrramálið, það er tímann sem maður tapaði í vor. Það er sagt að þetta sé meðal annars gert til að nýta birtu tímann betur. Gott og vel, en mér finnst þetta heldur atvinnurekenda vænt. Þetta verður til þess að maður kemur akkurat í birtingu í vinnuna en fer heim í myrkri. Að vísu kemur þetta ekki að mikilli sök hér fyrir norðan því að innan skamms skellur á ,,mörketid" og þá verður þetta allt sama svartnættið, hehehe.

Nunnur eru hættulegar í myrkri. Á leiðinni sem ég ek til vinnu fer ég framhjá klaustri. Þessi vegur er frekar illa upplýstur. Einn morguninn mætti ég nunnu í vegkantinum í svörtum kufli og með svarta hettu. Ég varð nánast ekki var við hana fyrr en vollinn gaf mér það til kynna með innbyggða árekstrarvarnarbúnaðinum, sem er staðalbúnaður í öllum betri sænskum bílum frá níunda áratugnum. Í tilefni að þessu datt okkur í hug hvort ekki væri markaður fyrir sérstaka endurskinskrossa fyrir nunnur og aðra trúgjarna.

Kveðja Olgeir

torsdag 18. oktober 2007

Olíuáætlanir Íslendinga..

Hafi þið heyrt um þetta??

Eru Íslendingar bara að fara að bora á milli Jan Mayen og Íslands á morgun eða hvað?? Magnað, alveg hefur maður misst af þessu :p

torsdag 11. oktober 2007

Veðrið og spár

Samkvæmt veðurspánni hér fyrir Tromsö hefur átt að vera rigning síðustu tvo daga. Hvernig sem á því stendur er samt komin um 15cm jafnfallinn snjór, í það minnsta á hæðinni sem við búum.
Einhvernveginn er minning mín um veðurspár heima á Íslandi þannig að þegar því er spáð að hugsanlega gæti sjóað rignir undantekninga laust.
Þetta hefur kannski eitthvað með óskir mínar um veður að gera, kannski eru veðurguðirnir bara að gera at í mér.

Kv. Olgeir

tirsdag 9. oktober 2007

Veturinn genginn í garð

Þá er fyrsti snjórinn kominn eins og spáin gerði ráð fyrir. Þegar við vöknuðum í morgun þá var þetta útsýnið:
Seinni partinn hafði snjómagnið aðeins minnkað en ekki mikið..kannski aðallega blásið til:

Það verður gaman að sjá hvort þessi fyrsti snjór fari eitthvað eða hvort það bæti bara í. Hann virðist í það minnsta ekkert vera á undanhaldi í augnablikinu þar sem það hefur gengið á með éljagangi í allan dag.

Heppilegt að Ollinn setti vollann á vetradekk í gær.. :p En það verður lítið hjólerí úr þessu :/

Kveðja,
Ragga og Olli

lørdag 6. oktober 2007

Felt og fasteign á hjólum

Þá er ég komin heim úr feltinu við Takvatn og Fjellfroskvatn. Það var ágætt alveg og fengum við sæmilegan afla sem bragðaðist mjög vel :)

Við gistum í rannsóknarstöðinni við Takvatn og það var mjög kósí.

Ég kom svo heim í gærdag og var Olli þá við það að fjárfesta í fasteign á hjólum. Gripurinn er nú okkar og getum við farið að þeysa um sveitir Troms héraðs.
Bíllinn er fáránlega vel farinn miðað við aldur (1986 módel) og það er greinilegt að hann hefur verið bónaður undir húddinu reglulega!

Í gærkvöldi fórum við svo á haustfagnað Íslendingafélagsins Hrafnaflóka og var það hin besta skemmtun. Þar fréttum við að veturinn komi sennilega í næstu viku!

Fleiri myndir er hægt að sjá inn á myndasíðunni.

Kveðja,
Ragga og Olli

mandag 1. oktober 2007

Þá veit maður það...

Jahá..

Ragga:
Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Espresso!
30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Og Olgeir:
Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Bankakaffi!
..sívinsælt og bráðnauðsynlegt.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?