tirsdag 9. september 2008

Til baka

Jæja, ég komst heim frá Svalbarða á hentugum tíma. Allt útlit var fyrir að við þyrftum að eyða viku á barnum í Longyearbyen þar sem ekki fékkst flug fyrir okkur heim fyrr en 12. september. Við ákváðum samt að gera heiðarlega tilraun síðasta föstudag og mættum við innritunarborðið í Longyearbyen hálftíma fyrir opnun og skráðum okkur á biðlista. Heppnin var með okkur og fengum við að fljóta með til Tromsö. Það var ljúft að komast heim eftir tvær vikur og losna við kolarykið, frostlögsklístrið og díselolíu ilminn. Við vorum semsagt að byggja við forhitunarstöð fyrir kolanámuna í Svea, Svea nord. Settum upp 1,6MW ketil, hitaeliment og blásara sem blæs 70000m3/klst. Fyrir er varmi upp á 4,4MW og blásarar upp á 140000m3/klst. Um 50°C heitu lofti er svo blásið inn í námugöngin til að halda hita á mannskap og vélum. Þetta gekk fínt og virkar vonandi allt.
Veðrið á Svalbarða var frábært, um 4-6°C hiti á daginn og sól flesta dagana. Mjög fallegt og gaman að sjá þetta á þessum árstíma líka. Fjöllin í Svea hafa svo skemmtilegan lit í sólinni, gulgrárauðleitt, get ekki alveg lýst því en það er góð stemning sem myndast við þessa birtu.
Það var mjög mikið af ref á ferðinni í Svea núna og komu þeir reglulega að kíkja á mann. Sennilega hafa þeir komist upp á lag með að sníkja mat hjá einhverjum og athuga því allar manneskjur á svæðinu.
Svo var merkilegt hvað birtan minnkaði mikið á þessum tveimur vikum, frá því að vera bjart alla nóttina niður í myrkur 1-2 tíma, gerðist ótrúlega hratt.
Læt þetta nægja í bili og set svo inn nokkrar myndir á morgun.
Kv. Olgeir

Ingen kommentarer: