torsdag 17. januar 2008

Skrifstofa og tiff

Loksins fékk ég úthlutað skrifstofuplássi og var það mjög kærkomið. Þetta er ágætlega stór skrifstofa með plássi fyrir 5 nema en það sem af er hef ég verið ein um herlegheitin. Þessar tvær fyrstu vikur eftir jólafrí hafa að mestu farið í alls konar umsýslu, pantanir, viðtöl og óþolandi ákvarðanatökur. Af hverju þarf allt að vera svona ótrúlega flókið og langdregið.. Ég get til dæmis engan vegin ákveðið hvort ég eigi að fara á þessa ráðstefnu á Florida í mars. Ég var eiginlega alveg búin að ákveða að fara (en samt ekki búin að kaupa flug og hótel sem betur fer) þegar það kom svo í ljós að einn kúrsinn sem ég þarf að taka verður kenndur á sama tíma og ráðstefnan er. Hann átti að vera í febrúar en eitthvað hafa þeir breytt þessu. Bölvað vesen! Svona virðist ekkert passa saman þessa dagana.

Þessa vikuna er kvikmyndahátíð í gangi hérna í Tromsö eða Tromsö international film festival eins og hún er kölluð. Þetta er víst nyrsta kvikmyndahátíð í heimi segja gárungarnir. Fyrir algera tilviljun lenti ég á opnunarhátíðinni en þannig var að ég var á leið heim úr skólanum og þar sem ég var að bíða eftir strætó niðri í bæ sé ég hóp af fólki með kyndla og dót. Hún forvitna ég varð að athuga þetta nánar og á aðaltorginu reyndist vera búið að koma fyrir risastórum samatjöldum og einhverjir samar voru að kyrja samasöng í samabúningum. Þeir eru voða skrautlegir í skærum litum svo það fer ekkert á milli mála hverjir eru á ferð. Einnig voru þeir þarna með hreindýr og búið var að búa til risaskjá úr snjó. Á þennan skjá á svo að varpa stuttmyndum og einhverju sniðugu á meðan á hátíðinni stendur.

Annars er svo sem ekki meira fréttnæmt hérna úr norðrinu. Það er smá snjór og hangir í á milli -5 og 0°C þannig að það er svo sem ágætlega vetrarlegt. Við erum enn ekki farin að skoða skíði en það kemur að því. Norsararnir trúa því ekki þegar ég segist aldrei hafa stigið á skíði enda eru þeir skíðaóðir. Reyndar þá datt okkur í hug að það gæti verið sniðugt að eiga svona spark-sleða.


Held það væri tilvalið að fara í skólann á svoleiðis, bæði er hægt að komast yfir á heilmikilli ferð og læsa honum svo við hjólagrindurnar fyrir utan skólann :) Bara snilld.

Góðar stundir,
Ragga

2 kommentarer:

Anonym sa...

Er kvikmyndahátíð og þú býður manni ekki?!?!? :o

Anonym sa...

Hei! ég bauð þér bara víst.. það er greinilegt að sumir hlusta á mann eða hvað :o