tirsdag 13. mai 2008

Keðjur

Eftir óhóflega snjókomu síðasta sólarhringinn neyddist ég til að setja keðjur undir Vollann til að komast í vinnuna í morgun. Það var nú eiginlega komið vor og jafnvel vottur af sumri, en það hvarf snögglega. Nú er reyndar komið glaða sólskin, sem er eins gott því ég var farinn að finna veðurfarinu hér í Tromsö allt til foráttu. Reyndar er ég sannfærður um að veturinn á Svalbarða var í raun léttari, í það minnsta mikið minni snjór, mikið þurrari snjór og mikið ódýrari bjór.
Ástæðan fyrir að ég leyfði ekki Volvónum að hvíla sig heima í dag, eins og undanfarna daga, var að ég þurfti að flytja verkfærin mín frá blokkinni, sem ég hef unnið í síðustu 8 mánuði , á nýtt byggingarsvæði. Ég fæ sem sagt ekki að klára blokk B-5 sem er orðin mér nokkuð kær enda hef ég lagt öll rör í hana. Ég er pínu svekktur, það hefði verið ánægulegt að fá að klára hana, enda ekki nema rúmur mánuður eftir af henni. Reyndar hafði ég hugsað mér að flytja verkfærin mín síðasta föstudag en þá neitaði Volvóinn að hjálpa mér, fór ekki að mala fyrir en ég hafði skipt út háspennukefli og kveikjuheila. En ástæðan fyrir að ég fæ ekki að klára blokk B-5 er að mér varð það á að sína framfarir og frumkvæði, það eitt og sér hefði verið í lagi en svo komst vinnuveitandi minn að því að ég væri farinn að tala norsku og þar með var ég gerður að BAS (byggansvarlig) á öðru verki sem fyrirtækið er með. Reyndar er þetta nokkuð sem ég kæri mig ekki um, líkar ekki að vera gerður ábyrgur fyrir hlutum sem ég hef ekki réttindi til, ég vil bara fá að skrúfa í friði.
17. maí er á næsta leiti og núna sér maður af og til skólalúðrasveitir ganga um bæinn og æfa sig, mis tærir tónarnir frá þeim eftir veturinn. En það verður eflaust gaman að fara í bæinn á laugardaginn og fylgjast með skrúðgöngunum, vonum bara að veðurguðirnir verði í góðu skapi.

Kv. Olgeir

1 kommentar:

Haukur sa...

Til hamingju með daginn Norðmenn. Ég vona að það séu nógu löng prik í fánaveifunum til að standa upp úr snjónum.