Þá er ég búin að prufa að fara smá túr á Jan Mayen. Við fórum út á mánudags- og þriðjudagsmorguninn með hóp af stúdentum og tókum sýni í Isfjorden. Kúrsinn er þverfaglegur og voru krakkar úr eðlisfræði og jarðeðlisfræði á meðal líffræðistúdentanna. Það tók doldið á að kenna þeim sem ekki voru með líffræðilegan bakgrunn því þá þurfti að útskýra hluti eins og flokkunarkerfið almennt og allt eftir því. En það var bara gaman og lærdómsríkt svo er líka alltaf gaman að pretika að dýrasvif sé það merkilegasta í heimi :p
Við fengum fínt veður en það var samt hluti af stúdentunum sem varð sjóveikur. Það er ekkert grín að sitja við smásjá í veltingi og greina magainnihald :p Lyktin hjálpar í það minnsta ekki.
Nóttin á milli kennsludaganna kom Claudia um borð og við tókum dýrasvifssýni í Billefjorden. Það var því ekki mikið um svefn. Vorblóminn er byrjaður eins og við fengum að finna fyrir. Yfirborðssýnin voru algerlega græn og það tók óratíma að hreinsa þau. Algert pain! Og ef það er eitthvað sem lyktar illa þá eru það þörungar :p
Túrinn var líka fín norskuæfing þar sem áhöfnin talaði bara norsku við mig og ég neyddist til að gera slíkt hið sama. Það er fáránlegt hvað það er mis-erfitt að skilja fólk eftir því hvaðan það er í Noregi.
Dagurinn í dag fór svo í smá panikk. Vegna misskilnings hélt ég að ég hefði notað vitlaust alkóhól á sýnin mín og þau væru öll ónýt. Þá er ég að tala um öll sýnin sem ég hef tekið yfir höfuð. Eins og gefur að skilja fékk ég vægt áfall.. eða ekki vægt.. En eftir að hafa talað við framleiðandann þá komst það á hreint að þetta var rétt efni. Hjúkk segi ég nú bara.
Kveðja,
Ragga
Abonner på:
Legg inn kommentarer (Atom)
Ingen kommentarer:
Legg inn en kommentar