tirsdag 1. mai 2007

Sleðinn er seldur

Héðan er svo sem lítið að frétta. Ég útbjó auglýsingu fyrir vélsleðann og hengdi upp í búðinni og Unis í gær. Ég átti nú ekki von á miklum viðbrögðum þar sem sleðatímabilinu fer nú að ljúka. En það kom einn og skoðaði sleðann áðan og keypti hann, þannig að það gekk fljótt fyrir sig. Já svo er nátturulega bara að vona að hann standi við þetta og komi og borgi og sæki sleðann á morgunn.

Ég var í Svea í síðustu viku og fer aftur í fyrramálið. Náði fjórum dögum hér í Longyearbyen núna sem er bara nokkuð gott. Um næstu helgi kem ég svo sennilega ekki heim heldur hitti Röggu og fleirri í skála rétt við Svea og eyði helginni þar. Það verður fínt. Af þessu tilefni fjárfesti ég í svefnpoka í gær. Þetta þýðir að ég kem sennilega ekki aftur í siðmenninguna fyrr en fimmtudaginn 10. maí. Föstudaginn 11. maí er ég svo búinn að skrá mig á smá námskeið til að fá leyfi til ,,varme arbeider" sem sagt leyfi til að vinna með eld, þ.e. suðu og gas, í húsum. Svona til að vera löglegur ef maður kveikir í. Það er víst krafa í Noregi að hafa farið á svona námskeið og hafa sérstakt númer.

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ísbjörn á vappinu í Svea. Hann var því miður farinn á mánudaginn er ég mætti með myndavélina. En ég náði myndum af fótsporunum hans. Þessi björn ætlaði að ná sér í einfalda máltíð og sat um sorpurðunnarsvæðið í Svea. Ég set inn mynd af sporunum á eftir.

Um daginn sagði ég frá skíðaflugvél sem ég sá á flugvellinum hér. Ég náði myndum af henni og set þær inn á eftir. Ef einhver veit hvaða tegund þetta er væri gaman að frétta af því.

Læt þetta nægja í bili

Kveðja Olgeir

Ingen kommentarer: