lørdag 24. mars 2007

Komin helgi

Jæja, nú er komin helgi og ég komst heim frá Svea. Ég komst meira að segja heldur fyrr en áætlað var. Fluginu var flýtt vegna slæmrar veðurspár þannig að ég var kominn til Longyearbyen um hádegi í gær, sem sagt ögn lengri helgi.
Ég keypti mér loksins riffil í gær. Mauser 30.06 árgerð 1943, þetta er gamall þýskur herriffill í ágætu standi. Þetta eru algengustu riflarnir hér á Svalbarða. Sennilega einhver hundruð af þeim í umferð hér. Þannig að núna getur maður farið í göngu eða vélsleðatúra að vild.
Ég er ekki frá því að vorið sé aðeins farið að láta á sér kræla. Það ringdi í alla nótt og tók upp töluvert af snjó með tilheyrandi vatnselg og svelli. Núna er allt í krapa og það veitti sko ekkert af þessum 130 hestöflum í vélsleðanum til að komast yfir pittina á vélsleðaveginum milli Nybyen og miðbæjarins. En þetta varir sennilega ekki lengi því það á að fara í -16°c frost um miðja vikuna.
Það eru víst þessi veðurskilyrði sem valda því að hreindýrin geta farið að drepast. Þá myndast klakalag sem þau ná ekki að krafsa sig í gegnum til að ná í æti og þau svelta í hel.
Í gærkvöldi fórum við aðeins á föstudags hittinginn í UNIS og fengum okkur smá bjór. Á heimleiðinni komum við aðeins við á Karlsberger pub þar sem töluvert af vinnufélögum mínum voru. Það var vægast sagt fróðlegt að koma þarna inn. Flest allir voru mjög drukknir. Margir sennilega byrjað fljótlega eftir að þeir stigu út úr flugvélinni frá Svea. Enda kannski ekki furða þar sem menn misstu síðustu helgi úr vegna veðurs, sem er alvarlegt mál. Karlsberger pub er nokkuð merkilegur því að hann hefur víst mesta úrval áfengistegunda í Evrópu á einum bar.
Ég tók svolítið af myndum í Svea núna í vikunni og set þær hér inn.

Bless í bili.
Olgeir

3 kommentarer:

Anonym sa...

æds, hvernig væri nú að gefa greyis hreindýrakornunum brauð svona á þessum síðustu og verstu ;)

Anonym sa...

Gott að þú ert kominn með riffil, nú er bara að ná sé í hreindýr áður enn þau verða of mögur!

Unknown sa...

Mauserinn er klassískur og var framleiddur lengi. Þessi sem þú átt er örugglega í meginatriðum eins og í fyrri heimsstyrjöldinni
Kv, Gunni Vald