søndag 27. mai 2007

Samfélagið

Jæja best að blogga smá.
Nú eru flestir Unis stúdentarnir sem við höfum umgengist að fara. Í gærkvöldi vorum við í kveðjuveislu í bragga fjögur þar sem Karlotta býr eða bjó. Þetta var fín kökuveisla sem endaði á að flestir fóru út að spila krikket og hafnarbolta. Það er svolítið sérstakt þegar fólk er að fara, þessum Svalbarðakafla fer senn að ljúka.

Þetta er svolítið sérstakt samfélag hérna á Svalbarða. Ragga telur það karllægt, sem er sennilega rétt. En fyrst og fremst held ég að það sé vélvætt allavegana hjá innfæddum. Hér eiga að sjálfsögðu allir vélsleða eins og ég hef oft minnst á. Einnig eru ótrúlega mörg mótorhjól og skellinöðrur hér. Ragga telur að mótorhjóla eignin sé engöngu af praktískum ástæðum, það er til að menn geti notað hjálmana sína allt árið. Hér eru börn alin upp í mótorsamfélagi. Á veturnar renna krakkar sér á sleðum sem hafa útlit vélsleða. Aðal vetrarsportið er að láta foreldrana draga sig með vélsleða á skíðum eða sleða. Núna eru allir krakkar komnir á reiðhjól og stunda stíft prjón og stökk æfingar á planinu við búðina, og eru bara nokkuð góð að prjóna. Við barna og unglingaskólann er sérstkakt skilti sem vísar á stæði fyrir skellinöðrur og mótorhjól. Á Íslandi hefði engöngu verið sett upp skilti sem bannaði skellinöðrur og mótorhjól.
Ég er kominn með vott af mótorhjóladellu. Ég er ekki viss um hvort þetta er þessi árlega vordella eða hvort hún risti dýpra. Í ár eru tíu ár síðan ég átti síðast mótorhjól. Það gæti verið gaman að halda upp á það með því að kaupa sér eins og eitt BMW ferðahjól, svona malbiks og malarvega hjól. Sá eitt auglýst hérna um daginn á fínu verði....
Næsta vika verður sennilega síðasta vikan mín í vinnu hér á Svalbarða og ég mun að öllum líkindum eyða henni í Svea samkvæmt venju. Ég hafði látið hvarfla að mér að vinna eina viku til en verkefnastaðan er víst ekkert alltof góð hér í Longyearbyen og ég er ekki tilbúinn að vera í Svea fram á síðasta dag. Auk þess er ég ekkert mjög spenntur fyrir ilmandi klóakverkefnum.

En jæja núna er best að fá sér göngutúr eða að lesa mótorhjólablað.

Kveðja Olgeir

1 kommentar:

Anonym sa...

He he Vélvirkinn að gugna þegar kemur að almennilegum verkefnum það er ekkert að því að ilma svolítið af kúk. Í upphafi skal jú endirinn skoða:) En þessi mótorhjóla fiðringur er að ganga meira að segja hérna á klakanum sem hefur að mestu verið snjólaus sl. tvo daga.

En gaman að fylgjast með ykkur.
Kveðja Fjölskyldan 204