fredag 30. mars 2007

79°Norður

Það kom að því, ég þveraði 79° norður :) Ferðalagið tókst með ágætum þrátt fyrir smá skakkaföll hér og þar. Við fengum frábært veður allan tímann og náttúrufegurðin var hreint ótrúleg. Við fórum gegnum dali og yfir hafís og jökla. Mér tókst á tveimur stöðum að fljúga af sleðanum, í bæði skiptin var ég að fara upp brattar brekkur. Bæði ég og sleðinn lifðum það af en önnur brekkan sem ég flaug af í er Kapp Schultz og er hún víðfræg fyrir að ganga af sleðum dauðum. Við fréttum það svo þegar við komum heim aftur að daginn áður hafði einn sleði gereyðilagst þar við að fara 20 veltur niður.

Við sáum för eftir ísbjörn sem hafði labbað upp brekku og runnið niður aftur, frekar fyndið, en við sáum enga birni. Aftur á móti sáum við heila hjörð af selum, sérstaklega á Tempelfjorden. Þegar við komum í Billefjorden keyrðum við fram á einn yfirgefinn nýborinn kóp. Honum hafði tekist að skríða marga metra frá holunni en við bárum hann þangað aftur. Hann var þó ekkert á því að vera þar og skreið aftur í burtu.

Þegar við komum að Skottehytta þá hittum við karl sem hafði orðið leiður á vinnunni sinni í Trondheim og ákveðið að ferðast á hundasleða um Svalbarða. Hann var með stóran sleða og 11 hunda fyrir honum. Hann var að koma úr Austfjorden og hafði ekkert sofið í 3 nætur fyrir ísbjarnaumgangi sem sýndu hundunum hans óþarflega mikinn áhuga. Einn björninn hafði brotið glugga á hyttunni sem hann dvaldist í en honum tókst að hrekja þá á brott. Með þessa vitneskju héldum við för okkar áfram yfir til Austfjorden og komum að lokum að Ovargangshytta þar sem við gistum. Þegar við vorum búin að koma matnum og bensíninu fyrir og kveikja upp í kamínunni héldum við áfram út á fjörðinn þar sem sýnatakan var fyrirhuguð.

Í stuttu máli sagt þá gekk vinnan vel fyrir sig og vorum við búin að öllu á um 3 tímum. Við höfðum neyðst til að skilja vinduna eftir heima, þar sem hún var of þung til að koma henni upp Kapp Schultz, og notuðum við snjósleða til að draga háfinn upp. Jörg smíðaði statíf til að halda reipinu yfir holunni og virkaði það glimrandi vel. Þrátt fyrir að allt hafi gengið eins og í sögu verður að hafa í huga að sýnataka á heimskautaslóðum er ekkert grín! Ef maður er ekki snöggur þá frýs sýnið bara fast við sigtið til dæmis og það er ekki erfitt að fá frostbit og kalsár. Að ég tala nú ekki um bara að koma sér á svæðið og að vera að vinna á ísbjarnaslóð, en það eru 3 ísbirnir á þessum slóðum og hafa verið í vetur en sem betur fer kom ekki til náinna kynna :p

Ég setti inn myndir úr ferðinni, endilega kíkja á það :)

Næsta feltferð er áætluð í vikunni eftir páska og verður þá farið yfir í Storfjorden sem er á austurströnd Spitsbergen. Þar er aðalheimili ísbjarnanna :) Spennandi..

Olli er kominn heim aftur og er núna kominn í frí í 2 vikur. Hann er búinn að vera í Svea í mánuð núna og er orðið tímabært að fá hann heim. Hann á svo stórafmæli í næstu viku og verður hvorki meira né minna en 30 ára. Í uppsiglingu er megapartý enda tilefnið ekki lítið :D

Kveðja,
Ragga

2 kommentarer:

Anonym sa...

Vá þetta hefur verið ekkert smá flott ferð... náttúrúlega séð allavega ;D

Anonym sa...

Þetta er eins og ævintýraveröld! Alveg mögnuð reynsla :)