søndag 8. april 2007

Barentsburg

Best að byrja á því að óska öllum gleðilegra páska.

Ég skrapp til Barentsburgar í gær. Barentsburg er sovéskur kolanámubær hér aðeins utar á Ísfirðinum. Við fórum á þremur vélsleðum og gekk ferðin vel. Þetta eru um 60 km aðra leið. Meiri parturinn af leiðinni er stikaður frá fyrri tíð og það eru sko engar nútíma plast stikur, nei það eru stikur úr sovésku stáli sem hafa ekki látið á sjá í 50 ár.
Það er upplifun að koma til Barentsburgar eftir að hafa hýrst innanum timburkofa Norðmannanna. Í Barentsburg eru flest hús úr steinsteypu, múrsteini og með bárujárn á þökum. Allt timburverk er meira og minna útskorið eða útsagað í flúr. Þessi hús eru enginn smá smíði, upp á 3-5 hæðir. Bærinn byrjaði að byggjast um 1932. Sennilega hefur mesti uppgangurinn verið milli 1970 og 1990. Barentsburg hafði á tímabili 3000 íbúa (í það minnsta húsnæði fyrir 3000) en eru ekki nema um 300 til 800 núna (fer eftir heimildum). Ég hef grun um að húsum og öðru hafi ekki verið mikið haldið við síðustu 15 árin. En miðað við það eru þau í frábæru standi og verið mjög góð að upplagi.
Á mörgum húsanna eru myndir, stórar málaðar myndir af hraustum, ánægðum og lífsglöðum verkamönnum. Á einum gaflinum var málað stórt kort af Svalbarða og öðrum var 30fm sumar mynd úr skógi. Og að sjálfsögðu er stór stytta af Lenín á torginu. Mjög fallegt.
Þetta virðast hafa verið miklir smiðir þarna á ferðinni og haft tíma til að leyfa sér að flúra. Þarna er mikið smíðað úr stáli og þeir hafa aðeins leyft sér að skreyta um leið í flestum hlutum.
Það er svolítið sorglegt að sjá hvernig allir þessir hlutir fara eftir að sovéska heimsveldinu var kippt úr sambandi, sjá hvernig verðmætir hlutir grotna og eyðileggjast. Þetta er svona eins og bál sem er að deyja út.
Það er nokkuð ljóst að ég verð að koma þarna bráðlega aftur og gefa mér betri tíma í myndatökur og skoðanir.
Á heimleiðinni komum við svo við í Colesbukta sem er yfirgefin sovésk höfn. Þar var skipað út kolum frá Grumantbyen. Þetta lagðist af um 1964 hef ég heyrt. En húsin standa nokkuð vel ennþá.
Ég set inn nokkrar myndir úr túrnum.

Á eftir ætlum við að elda lambakjöt í tilefni páskanna. En það er svo merkilegt, alltént miðað við úrvalið í búðinni hér, þá virðast Norðmenn ekki vera sjálfbjarga um kjöt. Eina lambakjötið sem er á boðstólnum hér er nýsjálenskt, nautakjötið er að mestu frá Brasilíu og svínakjötið danskt.

Kveðja Olgeir

3 kommentarer:

Anonym sa...

Gleðilega páska elskurnar! Bestu kveðjur frá Steina og Ágústu

Anonym sa...

Takk fyrir það og sömuleiðis :)

Unknown sa...

Frábært, þú hefur komist til Barentsburgar! Einhverntíma vorum við nú að skoða myndir þaðan! Virtist svo fjarlægur heimur á þeim tíma...og fjarlægt í hugmyndafræði og arkítektúr:-)

Kv, Gunni Vald