Nú eru svolítil vormerki farin að sjást þó ekki minnki snjórinn mikið. Á föstudaginn þegar ég var að gera mig klárann til heimferðar frá Svea sá ég pínulítinn snjótittling. Fyrsti smáfuglinn sem ég sé hér á Svalbarða. Við fengum okkur svolítinn göngutúr hér um bæinn í dag og þá sá maður fullt af þessum litlu greyjum syngjandi og flögrandi. Sennilega eru þeir að koma núna í hópum. Einnig sáum við fullt af máfum og æðarfugli sem maður hefur ekki orðið mikið var við í vetur. Einnig er sólin kominn í sumarfíling og skín nú allan sólarhringinn.
Annars er helgin búin að vera fremur róleg hjá okkur. Ragga með smá kvef og ég aðallega njóta þess að vera innandyra eftir útivinnuna í Svea, já og ég verð í Svea næstu viku líka. Í gær og í dag fengum við okkur smá göngutúra hérna um bæinn. Aðal markmiðið hjá mér var að taka myndir af snjóbílum og eldri bílum bæjarinns enda nokkuð mikið til af þeim hér. Áðan komum við svo við á kaffihúsinu og fengum okkur almennilegt kaffi og köku. Hér er ekki hlaupið að því að búa til almennilegt kaffi því að einungis er hægt að kaupa tvær gerðir í Svalbardbutikken og báðar eru þær vondar.
Á föstudaginn tók ég mig til og rakaði af mér heimskautaskeggið mitt. Ég var orðinn hálf leiður á því. Þetta vakti töluverða kátínu, sérstaklega þar sem fólk hér hefur ekki séð mig án skeggs. Eftir raksturinn labbaði ég niður í UNIS og það er ekki laust við að ég hafi verið farinn að sakna skeggsins einhverstaðar á fyrstu 500 metrunum. Það er ekki laust við að manni hafi orðið dálítið kalt í framann.
Ég hef aldrei séð jafn margar flugvélar á vellinum hér eins og á föstudaginn er ég kom heim. Þar voru tvær rússneskar Antonov 74 flutningavélar, rússnesk farþegaþota, amerísk einkaþota (eða lítil farþegavél), tvær Dornier 228 og svo ein skíðaflugvél sem lítur út fyrir að vera gömul. Hún er minnir svolítið á DC-3 en er sennilega aðeins stærri, appisínugul og dökkblá. Ég spjallaði við pabba og hann hafði einhvern tímann séð rússnenska vél sem leit út eins og DC-3 nema bara öll aðeins stærri. Í gærkvöldi frétti ég svo fyrir tilviljun að einhverjir Rússar væru að fara að fljúga á norðurpólinn. Hugsanlega tengist þessi vél því.
Það er ekki laust við að smá áhugi á flugvélum og þyrlum hafi kviknað hjá mér eftir allar þessar flugferðir til Svea. Í Svea hefur maður svo þyrlu fyrir augunum alla daga. Hún er notuð til að flytja díselolíu í jarðbor sem er að leita eftir nýjum námusvæðum einhvers staðar upp í fjöllum. Framan af var notaður snjótroðari. Hann þurfti meðal annars að keyra eftir hafís til að komast á staðinn. Í einni ferðinni, í mars byrjun, brotnaði undan honum ísinn og hann sökk á 42m dýpi. Ökumaðurinn, maður um sextugt, þurfti að bíða eftir að ökumannshúsið fylltist af sjó áður enn hann gat opnað og komist út. Hann komst upp í vökina og gat komist upp úr. Hann labbaði svo án húfu og á sokkaleistunum 3 km í -20°c frosti og myrkri. Hann sá ljósin í Svea og gat tekið stefnuna á þau. Hann náði að skríða síðustu metrana upp á veg þar sem vörubílsstjóri fann hann á síðustu stundu. Maðurinn náði sér að fullu eftir þetta.
En jæja best að láta þetta nægja í bili.
Kveðja Olgeir
Abonner på:
Legg inn kommentarer (Atom)
Ingen kommentarer:
Legg inn en kommentar