søndag 25. februar 2007

Sunnudagur í íshelli

Við Olli skruppum upp á Longyearbreen í dag á nýja sleðanum okkar. Ég hélt reyndar að ég gæti ekki setið meira á sleða í bili þar sem hendurnar á mér eru allar harðsperraðar í klessu, en ef manni býðst að fara í íshelli þá lætur maður svoleiðis smámuni ekki stoppa sig. Við fórum sem sagt í 10 manna hópi upp á jökulinn og byrjuðum á því að leita að opinu á hellinum. Það tók smá stund en á endanum fannst hann. Við vorum svo 8 sem fórum ofan í hellinn en Laurel, sem er enn fótbrotin, og Olli stóðu ísbjarnavaktina fyrir utan á meðan.

Ég hef aldrei farið í svona íshelli áður og það er óhætt að segja að hann hafi verið ótrúlegur. Fyrst var hann nokkuð breiður og ekkert mál að ganga uppréttur en þegar við komum lengra inn þurftum við stundum að skríða á maganum, eða kannski meira að skauta á maganum. Þá kom sér vel að hafa ísbroddana á fótunum og ísöxina við hendina. Við höfum sennilega gengið/skriðið í um 20 mínútur og svo stoppuðum við aðeins innst inni og slökktum á höfuðljósunum. Það er ekki oft sem maður upplifir svona mikið myrkur og svona mikla þögn. Það var líka ótrúlegt að sjá ísmyndanirnar og hvernig sumstaðar grjót stóð útúr ísnum. Magnað alveg hreint.

Sleðinn reynist bara vel ennþá og það er ekkert sem bendir til þess að hann gefi upp öndina alveg strax. Ég held samt að ég reyni að fá Olla til að kaupa nýjan rafgeymir í hann svo ég geti notað rafstartið; það er svo helvíti erfitt að toga hann í gang :D

Jæja.. best að setja handleggina í heitan bakstur :p

Kveðja
Ragga

Ps. Settum inn nokkrar myndir

2 kommentarer:

Anonym sa...

Bara svo það sé á hreinu þá öfunda ég ykkur ekki neitt af því að eiga sleða og þurfa af skyldurækni að keyra hann um fjöll og jökla. Ég er feginn að vera laus úr þessum pakka fyrir mörgum árum síðan. Eða ekki...

kv. Haukur

Anonym sa...

hehehe. Ég hélt á tímabili á laugardaginn að þetta væri ekki neitt fyrir mig. En svo á sunnudaginn fann ég einhverjar leyfar af gömlum kjarki og þá fengu þessi 130 hross aðeins að njóta sín.
Þú getur fengið að liggja hérna á dýnu ef þú villt koma í ,,ekki" meðaferð fyrir óvirka sleðasjúklinga :)

Kveðja Olgeir