torsdag 27. desember 2007

Gleðileg jól allir nær og fjær :)

onsdag 12. desember 2007

Jólafríííííí

Víííí, ég er komin í jólafrí. Ég kláraði prófin í gær og gengur þau svona lala. Ég held það sé ekki spurning að það sé betra að hafa skrifleg próf, svona munnleg eru bara stressandi.

Fyrsta heimsóknin fer svo alveg að bresta á en Sunna kemur til okkar á föstudaginn. Það verður stuð stuð. Einnig styttist í að við komum heim og það verður voða ljúft líka :)

Kveðja,
Ragga

mandag 26. november 2007

Tími fyrir blogg

Nú er sennilega kominn tími til að blogga smávegis.
Það hefur nú frekar lítið gerst hjá okkur upp á síðkastið, annað en hið daglega amstur. En ég verð nú ekki í vandræðum með að finna eitthvað til að fjasa um.

Best að byrja á færðinni og hirðingu gatna. Hér hafa verið umhleypingar síðustu vikur þannig að umhleypingar er ekki sér íslenskt fyrirbrigði. Hér rignir, snjóar, frýs, snjóar, þyðnar, og snjóar nokkrum sinnum á sólarhring. Mestur varð snjórinn á laugardag eða um 40cm. Hér eru göturnar ekki saltaðar. Það er örlítið sandað. Kosturinn við saltleysið er að bílar eins og bíllinn minn eru til ennþá, óryðgaðir. Allt annað eru ókostir. Eftir að hafa keyrt á saltbornum götum Reykjavíkur og keyrt á ósöltuðum götum Tromsö þá er ég barasta orðin ansi hlyntur saltinu. Hér verður svakalega hált og í hverri viku sér maður eða sér í fréttum vörubíla og aðra bíla inn í hinum og þessum húsagörðum í óþökk eigenda þeirra. Hér neyðast strætisvagnar og flestir vörubílar til að keyra á keðjum, sennilega eitthvað í hverri viku. Þetta verður til þess að allar götur eru eins og þvottabretti. Sagt er að saltið eyðileggji malbik, en ég hugsa nú að keðjuaksturinn fari með það mun fyrr, keðjuakstur sem hægt væri að sleppa við með söltun. Já og frostið hefur mest farið í -4°c þannig að söltun hefur verið vel möguleg. Jahá, þetta var semsgt pistill frá pirruðum ökumanni í vesturbænum. Humm, ég man það reyndar núna að ég hef ekkert þurft að nota rúðupiss og bíllinn er tiltölulega hreinn, ókei annar plús fyrir saltleysið.

Í dag sá ég Lödu 1300 í vinnunni. Sennilega einhver af Finnunum á henni. Mjög fallegur og heill bíll. Það yljaði mér aðeins um hjartaræturnar að sjá þessa Lödu. Hún er eins og Ladan sem ég rúntaði hvað mest á á sínum tíma. Var ótrúlega skemmtilegur bíll sem ég á fínar minningar frá, og sennilega félagar mínir líka. Einu sinni fórum við Tóti á henni til Akureyrar um verslunarmannahelgi, sennilega ´95 eða ´96. Við settum persónulegt hraðamet á milli Reykjavíkur og Akureyrar í þessum túr enda aldrei ekið leiðina áður. En hraðinn var fínn, við náðum til Akureyrar á 4 og 1/2 tíma og þetta var áður en Hvalfjarðargöngin komu til sögunar þannig að sennilega hefur meðalhraðinn legið í kringum hundrað. Nokkuð gott fyrir 4 gíra 1300 Lödu Safír. Á leiðinni upp Bólstaðarhlíðarbrekkuna var tekið ágætlega á greyinu. Þegar við vorum nánast komnir upp sáum við fólk út í kannti, þar voru á ferð Sævar, Guðný og sennilega Haukur, líka á leið norður. Við Tóti skildum ekkert í því hvað þau störðu á okkur er við komum upp brekkuna. Við höfðum að sjálfsögðu ekki tíma til að stoppa og tapa þar með dýrmætum tíma. Um kvöldið hittum við þau á Akureyri og fengum lýsingu með þessum orðum ,,við sáum móta fyrir stimplunum í húddinu á Lödunni þegar þið komuð upp brekkuna" Sennilega hefur Ladan verið staðin all vel upp og kannski aðeins verið farin að fljóta á ventlum í restina og því hávaðin vakið eftirtekt þeirra í brekkunni. Þetta var fín helgi.

Já, annars er bara lítið að frétta, töluvert myrkur, og á eftir að aukast. Á miðvikudaginn kemur er enginn sólarupprás hér.

Kveðja Olgeir

søndag 18. november 2007

Sjónvarpsstjörnur

Þá erum við Olli orðin fræg í Noregi. Við náðum að komast í 3 sekúndur í þátt um Rauða ísbjörninn á nrk1. Geri aðrir betur :D

Þátturinn fjallar um Kazam sem er Írani og er hann búsettur eða hreinlega fastur á Svalbarða. Hér er hægt að sjá þáttinn. Takið eftir því að klipsan þar sem við komum fyrir er tekin klukkan 12 á miðnætti sirka.

Kveðja,
Ragga og Olli

onsdag 14. november 2007

Það fer að styttast í fyrstu heimsóknina sem við fáum frá Íslandinu. Sunna ætlar að koma til okkar þann 14. des og þá verður sko bara gert eitthvað skemmtilegt :) Úúú ég get ekki beðið :)

Svo eru jólin alveg að koma, bara 41 dagur þangað til :D Vonandi kemst ég bara lifandi frá prófatörninni fyrst :/

Kveðja,
Ragga

lørdag 3. november 2007

Í dag eigum við Olli eins árs trúlofunarafmæli :) .. hmm... það þýðir sennilega að giftingarplönin eru komin á fjögurra ára planið í staðin fyrir fimm ára planið.. gaman að því :p

Kannski við hefðum átt að láta verða að því á Svalbarða.. það hefði verið doldið svalt :D Sýslumaðurinn er jú liðlegur á Barðanum.. hver segir að við verðum ekki á ferðinni þar aftur..

kv
Ragga og Olli

onsdag 31. oktober 2007

Skattmann

Norska kerfið er kannski ekki sem verst. Í gær frétti ég að fyrir nóvember mánuð borgar maður bara hálfan skatt af laununum sínum. Ekki sem verst það. Og svo skemmtilega ,, vill til" að við þurfum að vinna töluvert mikla yfirvinnu í nóvember. Þetta er víst einskonar jólagjöf frá ríkinu, en Norðmenn segja að þetta sé svo þeir hafi efni á jólagjöfunum.

Ragga er að að fara að halda fyrirlestur á norsku á morgun, smá stress ,, men det går bra"

Í dag er haldið upp á Halloween (eða ,,halló vín" á góðri íslensku) hér í Noregi og því allt morandi í krökkum í allskyns búningum.

Annars er bara allt gott að frétta héðan.

Kveðja Olgeir

søndag 28. oktober 2007

Þurr dagur

Aldrei þessu vant var síðasti föstudagur án rigningar, en þetta er fyrsti þurri dagurinn í langan tíma að því er mér finnst. Það var sól og um 10°c hiti. Í tilefni af þessum einstaka atburði hafði ég upp á bílaþvottaplani hér í Tromsö og skolaði af vollanum. Er heim var komið bónuðum við kaggann og kom þá í ljós þessi fíni blóðrauði litur.

Laugardeginum eyddi ég í vinnu og Ragga í lærdóm þannig að þessi helgi hefur verið frekar viðburðarsnauð eins og reyndar öll síðasta vika. Bara hið almenna brauðstrit.
Reyndar fórum við í pönnukökuveislu á miðvikudagskvöld til hennar Sveu sem er í skólanum með Röggu. Það var ljómandi fínt. Þar hitti ég hann Egil sem var á Svalbarða á sama tíma og við. Hann náði níu rjúpum á einum degi nú um daginn. Hér er rjúpnaveiði tímabilið frá 10. september til 15. mars. Einnig frétti ég hvernig ég á að bera mig að við að fá veiðileyfi hér. Maður verður að kíkja á það.
Reyndar rifjast það upp fyrir mér þegar ég fer að rifja upp þessa viðburðarsnauðu viku að kannski var hún ekki svo fábrotinn. Því að um síðustu helgi keyrðum við svolítið hér um nágrennið. Á laugardeginum keyrði ég til Hansnes sem er bær á Ringvassöya sem er næsta eyja norðan við Kvalöy. Þetta var um 130km skrepp. Eyjarnar eru ýmist tengdar saman á brúm eða göngum. Það er ansi gaman að keyra hérna um strjálbýlið. Mikið af gömlum húsum og síðast en ekki síst mjög mikið af gömlum bílum og vélum sem hafa fengið að vera í friði fyrir hinum alræmdu hreinsunarátökum sem eiga það til tröllríða öllu.
Á sunnudeginu fengum við Ragga okkur svo bíltúr út á Håköy sem er hér á milli Tromsö og Kvalöy. Þar var margt að sjá, hross af ýmsum gerðum með meiru. Fyrir utan Håköy liggur flak af þýska herskipinu Tirpitz sem var sökt 12. nóvember 1944. Hér má lesa meira um Tirpitz.

Síðustu nótt var klukkunni breytt hér í Noregi og núna er kominn vetrartími, þannig að nú munar bara einum tíma á okkur og Íslandi. Þetta er ágætt að ýmsu leyti, maður fær einn tíma í auka svefn í fyrramálið, það er tímann sem maður tapaði í vor. Það er sagt að þetta sé meðal annars gert til að nýta birtu tímann betur. Gott og vel, en mér finnst þetta heldur atvinnurekenda vænt. Þetta verður til þess að maður kemur akkurat í birtingu í vinnuna en fer heim í myrkri. Að vísu kemur þetta ekki að mikilli sök hér fyrir norðan því að innan skamms skellur á ,,mörketid" og þá verður þetta allt sama svartnættið, hehehe.

Nunnur eru hættulegar í myrkri. Á leiðinni sem ég ek til vinnu fer ég framhjá klaustri. Þessi vegur er frekar illa upplýstur. Einn morguninn mætti ég nunnu í vegkantinum í svörtum kufli og með svarta hettu. Ég varð nánast ekki var við hana fyrr en vollinn gaf mér það til kynna með innbyggða árekstrarvarnarbúnaðinum, sem er staðalbúnaður í öllum betri sænskum bílum frá níunda áratugnum. Í tilefni að þessu datt okkur í hug hvort ekki væri markaður fyrir sérstaka endurskinskrossa fyrir nunnur og aðra trúgjarna.

Kveðja Olgeir

torsdag 18. oktober 2007

Olíuáætlanir Íslendinga..

Hafi þið heyrt um þetta??

Eru Íslendingar bara að fara að bora á milli Jan Mayen og Íslands á morgun eða hvað?? Magnað, alveg hefur maður misst af þessu :p

torsdag 11. oktober 2007

Veðrið og spár

Samkvæmt veðurspánni hér fyrir Tromsö hefur átt að vera rigning síðustu tvo daga. Hvernig sem á því stendur er samt komin um 15cm jafnfallinn snjór, í það minnsta á hæðinni sem við búum.
Einhvernveginn er minning mín um veðurspár heima á Íslandi þannig að þegar því er spáð að hugsanlega gæti sjóað rignir undantekninga laust.
Þetta hefur kannski eitthvað með óskir mínar um veður að gera, kannski eru veðurguðirnir bara að gera at í mér.

Kv. Olgeir

tirsdag 9. oktober 2007

Veturinn genginn í garð

Þá er fyrsti snjórinn kominn eins og spáin gerði ráð fyrir. Þegar við vöknuðum í morgun þá var þetta útsýnið:
Seinni partinn hafði snjómagnið aðeins minnkað en ekki mikið..kannski aðallega blásið til:

Það verður gaman að sjá hvort þessi fyrsti snjór fari eitthvað eða hvort það bæti bara í. Hann virðist í það minnsta ekkert vera á undanhaldi í augnablikinu þar sem það hefur gengið á með éljagangi í allan dag.

Heppilegt að Ollinn setti vollann á vetradekk í gær.. :p En það verður lítið hjólerí úr þessu :/

Kveðja,
Ragga og Olli

lørdag 6. oktober 2007

Felt og fasteign á hjólum

Þá er ég komin heim úr feltinu við Takvatn og Fjellfroskvatn. Það var ágætt alveg og fengum við sæmilegan afla sem bragðaðist mjög vel :)

Við gistum í rannsóknarstöðinni við Takvatn og það var mjög kósí.

Ég kom svo heim í gærdag og var Olli þá við það að fjárfesta í fasteign á hjólum. Gripurinn er nú okkar og getum við farið að þeysa um sveitir Troms héraðs.
Bíllinn er fáránlega vel farinn miðað við aldur (1986 módel) og það er greinilegt að hann hefur verið bónaður undir húddinu reglulega!

Í gærkvöldi fórum við svo á haustfagnað Íslendingafélagsins Hrafnaflóka og var það hin besta skemmtun. Þar fréttum við að veturinn komi sennilega í næstu viku!

Fleiri myndir er hægt að sjá inn á myndasíðunni.

Kveðja,
Ragga og Olli

mandag 1. oktober 2007

Þá veit maður það...

Jahá..

Ragga:
Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Espresso!
30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Og Olgeir:
Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Bankakaffi!
..sívinsælt og bráðnauðsynlegt.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?

fredag 28. september 2007

UNIS árbókin fyrir vorönn 2007 var að koma á netið.. endilega kíkið á það: Vorönn 2007

torsdag 27. september 2007

Á sjó..

Þá er þessum sjótúr lokið. Við fórum út á mánudagsmorguninn og komum aftur í land á miðvikudagskvöldið, sem sagt hálfgerður örtúr. Ágætis túr samt, eða bara svona eins og sjótúrar eru að jafnaði. Við fengum fínt veður framan af en svo fór að blása um það leyti sem við vorum að snúa heim. Skipið heitir Johan Ruud og er í minni kantinum eða svona rétt minni en Bjarni Sæm. Þessi skip eru nú öll voða svipuð þannig lagað séð og eiginlega áhafnirnar líka hehe. Þetta eru allt sömu týpurnar, kokkarnir eru eins, bátsmennirnir eru eins, hásetarnir eru eins og svo framvegis. Einnig eru brandararnir svipaðir og alltaf eru það kokkarnir sem mest grín er gert að.

Í þessum kúrsi sem fór í þennan túr þá erum við bara 3 nemendur og höfðum við með okkur 3 kennara, heila áhöfn og skip. Ekki slæmt það hehe.

Í næstu viku fer ég svo aftur í annan felt kúrs. Þá verður farið að Takvatni og gist í hyttu þar við. Það verður eflaust gaman og ágætis tilbreyting að fara í ferskvatnsfelt en ekki alltaf þessa endalausu sjótúra.

Skólinn er orðinn geðveikur og það er allt of mikið að gera. Í öllum kúrsum eru verkefni komin á fullt sving og ég veit ekki hvað. Sýnin mín komu líka öll í einu í gær til Tromsö. Einn sýnapakkinn kom flugleiðina frá USA og tveir sýnapakkar komu sjóleiðina frá Svalbarða með Jan Mayen. Ég hef auðvitað engan tíma til að sinna þeim í bili þannig að þau fara bara upp í hillu.

Olli fer í ferð með vinnunni sinni á föstudaginn og verður fram á laugardag. Þeir fara yfir til Sommeröy og svamla þar í heitum potti (sem er kallaður badestamp á norsku hehe) og snæða dýrinds steikur.

Annars bara jám.. bleh.. set kannski inn myndir úr túrnum.

kv
Ragga

mandag 17. september 2007

ohh.. *hrollur* ... pestó eða grandiosa.. aldrei aftur! Að minnsta kosti ekki fyrr en í næstu viku :p

Svo lufsuðumst við til að setja inn nokkrar myndir í hið nýfundna myndaalbúm.

Myndalinkurinn fundinn

Hér með tilkynnist að myndasíðulinkurinn er fundinn. Vegna ábendingar frá glöggum lesanda hófs mikil leit að hinum mæta link. Hann fannst sem betur fer heill á húfi. Ástæða brotthvarfsins er talið vera svokallað "fikt". "Fikt" er stórhættulegt og ber að meðhöndlast sem slíkt, helst með hlífðargleraugum og gúmmíhönskum.

Nefndin

mandag 10. september 2007

Helgin..

var bara róleg hjá okkur. Við fórum í grillveisluna hjá NFH og Olli vann bjórkippu þannig að við fórum heim með einum fleiri bjór en við komum með. Á laugardaginn rákumst við svo inn á garðsölu í næstu götu. Þar var rússnesk kona að selja innbúið sitt. Það er skemmst frá að segja að við komum heim með eitt stykki hægindastól:


pullan var reyndar svo ógirnileg að við pökkuðum henni í kassa og settum Rúdolf í staðinn :)

Með í kaupunum fylgdi líka nýr meðleigjandi.. hún Laufey:



Hún prýðir nú stofuna okkar ásamt rússnesku súkkulaði og fyrrum forsetum Sovétríkjanna :p Þá fengum við reyndar í Barentsburg í vor.



Annars þá er það bara daglegt amstur sem á hug okkar allan um þessar mundir.

Ha det bra :D
kv
Ragga

torsdag 6. september 2007

Andlaus

Heitir það ekki að vera andlaus þegar andi til skrifta kemur ekki yfir mann. Á daginn þegar ég er að leggja mis skemmtileg rör þá er ég yfirleitt búinn að semja þrusu fín og fyndin blogg í huganum. En þegar heim er komið er hausinn galtómur og ég hef ekki nokkra löngun til bloggskrifta.

Annars er allt gott að frétta hér. Gengur allt svona ágætlega. Mikið að gera hjá Röggu í skólanum og hamagangur hjá mér í vinnunni. Samt höfum við nú aðeins getað kannað umhverfið hér í grendinni. Síðasta laugardag fengum við okkur hjólatúr út á Kvalöy í fínu veðri. Þess má geta að þetta var fyrsti regnlausi dagurinn í mjög langan tíma. Kvalöy er falleg og stærri en það að maður nái að skoða hana á hjóli á skömmum tíma. Við þurfum að kíkja á hana betur þegar við verðum orðin bílvædd.
Einnig erum við að uppgvötva verslunarkjarna hér og þar með heldur lægra verði en í smábúðunum hér í grendinni. En það verður að játast að það er helvíti dýrt að borða hérna, töluvert dýrarara en á Íslandi þótt það slái nú ekki Svalbarða við.

Í gærkvöldi fórum við í heimsókn til forsprakka Íslendingafélagsins Hrafnaflóka sem er hér í Tromsö. Það var fínt að geta spjallað aðeins og fræðst um ýmislegt. Ágæt tilbreyting að spjalla á Íslensku, maður er hálf fatlaður í norskunni ennþá, nær ekki öllum bröndurum þó maður skilji nú töluvert. (En það kemur nú ekki að sök því að Norðmenn eru nú ekkert mikið í bröndurunum)

Annað kvöld erum við á leið í grill hjá NFH (Norges fiskeri höyskole, held að það sé skrifað svona). Það verður ábyggilega fínt. Svo verð ég vonandi ekki að vinna á laugardaginn þannig að þá er spurning um að kíkja á Pólarsafnið sem við rákumst á um síðustu helgi. En meira um það síðar.

Kveðja
Olgeir

søndag 26. august 2007

Rigning

Það er nokkuð ljóst að enginn verður svikinn af haustrigningunum hérna í Tromö. Það kemur skúr á hverjum degi enda virðist það vera í tísku að ganga í gúmmístígvélum.

Annars gengur allt bara nokkuð vel, Ragga í skólanum og ég að vinna. Ég er að vinna sem pípari í nokkrum blokkum sem er verið að byggja hér á eyjunni. Það er svo sem ágætt en kannski ekki alveg mitt fag. En þar sem það vantar mjög mikið af pípulagningarmönnum er ágætt að leika einn slíkan. Ég á reyndar í smá erfiðleikum við að halda í við samstarfsmenn mína en ástæðan fyrir því er nú sennilega sú að þeir eru búnir að leggja í fimmtíu eins íbúðir síðasta hálfa árið og því nokkuð vanir efninu og handtökunum. En ég ætti nú að ná því að verða nokkuð góður, það er ef ég vinn áfram hjá þeim, því að við eigum eftir að leggja í aðrar sjötíu íbúðir af sömu gerð.

Ég fer á hjóli í vinnuna, ágætu DBS fjallahjóli sem ég keypti um daginn. Það er mjög fínt að hjóla í vinnuna, það tekur um fimmtán mínótur og er nánast bara niður á við eða jafnslétta. En eins og gefur að skilja er heldur erfiðara að hjóla heim, allt á fótinn. Við búum sem sagt á toppnum á Tromseyju. Þannig að sennilega íhugar maður bílakaup þegar líður á veturinn og snjórinn og myrkrið kemur. Það er verst hvað bílar eru hrikalega dýrir hérna. Við hjóluðum einn hring á bílasölu um daginn og það ódýrasta sem við fundum var tuttugu ára gömul Toyota Corolla sem var aðeins keyrð 260.000km á krónur 160.000 íslenskar.....ég hef oft hent betir bílum en þessum heima á íslandi.

Hér á Luleåveiginum gengur allt ágætlega. Við uppgvötvuðum að við höfum bæði geymslu og loftvarnarbyrgi í kjallaranum. Við vorum búin að taka eftir skilti sem á stóð "Tilfluktsrom" og vísaði niður í kjallara. Þar er stór stálhurð á stóru herbergi sem maður getur flúið inn í ef Pútin sendir kjarnorkureður af stað frá Murmansk. Við gúggluðum þessi "Tilfluktsrom" og komumst að því að það eru rými fyrir 2,6 miljónir mann í svona byrgjum í Noregi. Þau voru flest byggð frá stríðslokum og fram til 1990. Ég hef nú grun um að mörg þeirra séu orðin að geymslum núna, það er allavegna raunin hér.

Læt þetta nægja í bili.
Kveðja Olgeir

mandag 20. august 2007

Er það ekki bara.. á maður ekki bara að söðla um og verða ljóðskáld :p

You Should Be a Poet

You have a way with words... and a talent for drawing the pure emotions out of experiences.
Your poetry has the potential to make people laugh and cry at the same time. You just need to write it!

søndag 19. august 2007

Hjólaæði

Það er mest lítið að frétta frá okkur. Skólinn er byrjaður og námskeiðin um það bil að taka yfir líf mitt. Olli gengur bara vel í vinnunni og allt gott um það að segja.

Við ákváðum að fjárfesta í hjólum og erum búin að vera að prufa þau um helgina. Hérna rétt fyrir aftan húsið sem við búum í eru hjólastígar sem ná yfir eyjuna þvera og endilanga. Þessir sömu stígar breytast reyndar í gönguskíðabrautir þegar fer að snjóa. Þá er spurning hvort maður skiptir yfir og fær sér gönguskíði. Það yrði fróðlegt í meira lagi þar sem ég hef bara einu sinni farið á skíði á ævinni. Ég var 9 ára og það varði í 15 mínútur. Glorious alveg hreint ha..

Kveðja,
Ragga

lørdag 11. august 2007

Tromsö

Við erum komin aftur til Tromsö eftir afar stutt stopp á Íslandi. Það var samt mjög gott að hitta aðeins fjölskylduna þótt það hafi bara verið nokkrir klukkutímar sem við fengum saman.

Við komum til Tromsö seinni partinn á fimmtudaginn og fórum þá beint á gistiheimilið hans Raymond. Ég sofnaði strax enda höfðum við verið 30 tíma á ferðalagi. Í gær fór ég svo og náði í lyklana að íbúðinni á meðan Olli fór í atvinnuviðtal. Íbúðin er mjög fín með útsýni út á sjó sem og til fjalla. Hún er 35 fermetrar, tveggja herbergja og með húsgögnum. Það eina sem hægt væri að setja út á hana er að í bakgarðinum er RISA stór spennistöð og geðveikrahæli, en það er svo sem bara hressandi.

Olli fær svo að vita á mánudaginn hvort hann fái vinnuna. Fyrirtækið heitir EnergiProsject og sér um leggja allar hugsanlegar lagnir; á íslensku væri sennilega talað um "heildar lausnir" eða eitthvað álíka.

Skólinn hjá mér byrjar svo á mánudaginn en fyrsti tíminn er ekki fyrr en á þriðjudag. Það verður æsispennandi að sjá hvernig það verður að taka kúrsa á norsku svo ekki sé meira sagt.

Kveðja,
Ragga

søndag 5. august 2007

Boston here we come..

Þá er þessu bara alveg að ljúka. Hver hefði trúað því hversu hratt tíminn hérna hefur liðið. Ég fékk protocolið til að virka og er það mjög jákvætt en svo verð ég að halda þessu áfram í Tromso og klára vinnsluna á sýnunum þar.

Nú á eftir tökum við rútuna til Boston þar sem við verðum fram á miðvikudag. Það verður ágætt að kúpla sig aðeins út úr vinnugírnum og bara rölta um göturnar og skoða sig um.

Kveðjur,
Ragga

onsdag 1. august 2007

Bílar

Mig hefur alltaf langað örlítið í eindrifa pallbíl. Þá helst Ford Ranger eða Chevrolet S-10. Þetta er sennilega einfaldasta uppbygging af bíl sem hægt er að fá nú á dögum. Afturdrifs, beinskipt, langstæð vél og einföld innrétting. Svo er svo askoti þæginlegt að hafa svona pall ef maður þarf að grípa með sér hásingu eða gírkassa.
Ég hef alltaf skoðað þessa bíla vel og vandlega þegar þeir hafa komið á sölur á Íslandi en aldrei látið verða af því að kaupa eða prófa. Það er sagt að þeir séu vonlausir í snjó og hálku en það má nú redda slíku, þar að auki alltaf gaman að smá veseni. Þetta eru bílar sem ætti að vera hægt að koma mun lengra en fólksbíl enda töluvert hærri og á sterkari undirvagni. Eyðsla ætti heldur ekki að vera svo mikil þar sem þeir eru eindrifa og frekar vélarlitlir af Ameríkana að vera.

Það er mikið af þessum bílum hér. Virðas vera vinsælir sem bílar hjá ungum strákum. Enda eru þetta í raun bara hálfir bílar og hljóta því að vera á hálfu verði.
Sportbílar eins og Chevrolet Corvetta virðast aftur á móti nær eingöngu vera vinsælir hjá körlum yfir sextugu. Ögn skondið það.

Annars er ekkert að frétta hér. Sennilega förum við til Boston á sunnudaginn og verðum þar í þrjár nætur áður en við förum (heim?) til Noregs.

Kveðja
Olgeir

lørdag 28. juli 2007

Tilkynningaskyldan

Af okkur er allt gott að frétta. Eða í raun ekkert að frétta.
Þetta fer nú óðum að syttast þessi dvöl hér í usa og ekki laust við að maður hlakki til að komast úr hitanum í þæginlega veðrið norðan við heimsskautsbaug.
Ég skellti inn nokkrum myndum frá síðustu dögum. Læt þær sjá um að útskýra hvað við höfum verið að bedrífa fyrir utan daglega amstrið.

Kveðja Olgeir

onsdag 18. juli 2007

Fréttir, nei engar fréttir

Hérna gengur lífið sinn vanagang.

Í dag er mígandi rigning með tilheyrandi þrumum og eldingum. Það er gott. Þrumurnar eru ansi kraftmiklar hér. Meðal annars sló niður eldingu milli skólahúsanna, þar sem Ragga er, í morgun. Það var víst ansi hressilegur hvellur, eða af styrkleikanum ,,ég hélt ég fengi hjartaáfall" að sögn Röggu.
En rigningin er góð og fékk ég mér fínan hjólatúr í henni í morgun enda var regngallinn með í för og rétt að nýta hann.

En best að segja aðeins frá síðustu dögum.

Á föstudagskvöldið fórum við til New London og röltum aðeins um þar. Þar var einhverslags bæjarhátíð með tilheyrandi mannfjölda, sölubásum og leiktækjum. Í raun er ekkert meira að segja um það.

Á laugardeginum fórum við í grillveislu til Lísu. Þetta var í raun afmæli fyrir Röggu. Við mættum um tvö leytið en það virðist vera tíminn sem fólk byrjar á svona veislum. Við grilluðum hamborgara og pulsur, átum osta og drukkum amerískan bjór sem er reyndar óþarflega skyldur vatni á bragðið. Þetta fór fram í garðinum við íbúðina hennar Lísu í úrvals veðri. Eftir grillið röltum við svo öll út í garð sem er hér rétt hjá og fylgdumst með flugeldasýningu. Sýningunni var skotið upp af prömmum á ánni sem er á milli Groton og New London. Þetta var mjög flott sýning og stóð í um hálftíma. Eftir þetta var svo farið til baka í veisluna og afmæliskaka borðuð.
Þetta var orðin frekar langur dagur og við vorum feigin að komast heim í restina.

Á sunnudeginum var Ragga að vinna en ég fékk mér hjólatúr um nágrennið. Meðal annars hjólaði ég meðfram kafbátasmiðjunni sem er hér í bænum. Sú smiðja er enginn smá smíði, ég hugsa að vegalengdin sem ég hjólaði framhjá girðingunni hafi verið um 2km. Ég tók engar myndir af þessu fyrirbæri þar sem girðingin var þétt setin skiltum sem gáfu það til kynna að maður yrði skotinn, hengdur og flengdur ef maður svo mikið sem sýndi sig með myndavél. Einnig hjólaði ég út að kafbátaherstöðinni sem er hér, en hún er svona í stærri kantinum. Þar var lítið að sjá því að allt er að sjálfsögðu innan girðinga.

Og svo líður bara vikan. Ragga í skólanum og ég í hjólatúr. Það er ágætis garður eða friðað svæði svona í hálftíma hjólafjarlægð héðan. Þar er fullt af ágætlega krefjandi, þröngum skógarstígum sem er gaman að hjóla. Ég reyndar fór aðeins yfir þolmörk hjólsins í gær sem endaði með að það slitnaði teinn í afturgjörð, enda voru átökin ágæt. Nú þarf maður að fara aðeins blíðlegar með það til að það endist manni sem farartæki. Já og að maður geti skilað því í nothæfu ástandi.

Ég læt þetta nægja í bili. Ég set inn nokkrar myndir.
Kveðja Olgeir

fredag 13. juli 2007

Afmæli

Ragga á afmæli í dag :) Til hamingju með það :)

Í kvöld ætlum við á bæjarhátíð í New London.
Annað kvöld verður svo grillveisla hjá Lísu, sem er að hjálpa Röggu í verkefninu. Þetta er svona í og með afmælisveisla Röggu.

Lítið að frétta af mér hinsvegar. Ég uppgvötvaði það í gærkvöldi að ég hjóla sennilega ekki á ríflegum ljóshraða. Sólin hafði náð kálfunum á mér og grillað þá hressilega. Einhverra hluta vegna hafði mér ekki hugkvæmst að bera sólaráburð á kálfana, bar einungis á sköflunga og hné.

Kveðja Olgeir

Daglegt líf í Groton

Olli setti inn myndir áðan frá hjólatúrnum sem hann fór í dag til Mystic. Það er lítill bær hérna rétt hjá (um 10 km austar) sem hefur það fram yfir Groton að hafa miðbæ. Endilega kíkja á það. Ég þarf svo að taka með mér myndavél á labbann svo ég geti sýnt ykkur hvað ég er að bardúsa á daginn. Það er kannski ekki alveg jafn spennandi og það sem Olli er að gera en nógu spennandi samt..fyrir suma :p

Í gær fórum við í bíó að sjá Harry Potter myndina nýju. Hún var bara ágæt þótt bókin sé auðvitað mikið skemmtilegri. Annars var að smá upplifun að fara í amrískt bíó. Á undan voru auglýsingar eins og gengur og gerist nema hérna voru auglýsingar frá flug- og sjóhernum þar sem hernaður var látinn líta út fyrir að vera ótrúlega ævintýralegur og skemmtilegur. Merkilegt.. sér staklega þar sem við allar opinberar byggingar er flaggað í hálfa stöng heilu vikurnar vegna hermanna sem hafa látist í Írak nýlega.

Svo eru það afmælistilkynningarnar... nóg af þeim þessa dagana.

Í gær (11.) átti Hanna Sigga móðursystir afmæli og í dag (12.) á Elva Pallakona (hvað kallast svona fjölskyldutengsl?) afmæli.

Til hamingju með það :)

Á morgun er svo aðalafmælið þ.e. mitt :D

Kveðja,
Ragga

onsdag 11. juli 2007

Við erum góð

eða í það minnsta finnst skordýrum svæðisins við vera bragðgóð og auðveld bráð. En við höfum gert ráðstafanir og keypt okkur bráðhollt skordýraeitur sem við gluðum yfir okkur kvölds og morgna.

Annars er nú heldur lítið að frétta hér. Ragga er í skólanum og ég fæ mér hjólatúra og les bækur. Mikið einfaldara getur lífið ekki orðið.

Annars er Ameríka ábyggilega ágæt, allavegana hér. Ég gæti í það minnsta alveg sætt mig við eitt af einbýlishúsunum hér, stórar lóðir, mjög stórir bílskúrar og stór bílastæði þar sem ekkert virðist vera athugavert við að eiga svona einsog þrjár kynslóðir af bílum. Þetta eru lang mest einbýlishús hér, ekkert endilega mjög stór hús, en á stórum lóðum. Þetta gerir það að verkum að bærinn flæmist yfir stórt svæði og vegalengdir verða langar. Mér dauðlangar að taka myndir heim að mörgum þessara húsa og af bílunum í stæðunum en ég kann ekki við það, það er ekki gott að segja hvernig fólk tæki því.

Síðasta sunnudag fórum við í göngutúr með vinnufélögum Röggu. Við keyrðum að vatni sem er, að ég held, örlítið hér norðan við og tókum ágætan göngutúr þaðan. Það var ágætt. Gaman að sjá alla landamerkjagarðana sem hlykkjast um allt. Maður heldur að maður sé að ganga í villtum skóg en það er víst ekki. Allt þetta land hér hefur verið rutt einusinni til tvisvar og stundaður á því landbúnaður. Sennilega fyrst rutt uppúr 1700. Um leið og hætt er að stunda landbúnað tekur skógurinn yfirhöndina. Það er fínt að labba í skóg, skuggi og svona, nema að einu leiti, maður sér ekkert, getur ekki fengið neina yfirsýn að ráði, eitthvað sem ég gleymi alltaf í skógleysi norðurhjarans. Við vatnið sem við lögðum bílnum sá maður vel græjufíkn landans. Þar kom hver pallbíllinn á fætur öðrum með bát eða vatnasleða á pallinum.

Pallbílar, hér eiga allir pallbíla. Ekkert endilega stærstu og sverustu gerð eins og oft virðist vera lenskan á Íslandi. Hérna eru allar hugsanlegar gerðir, mikið af nettum eindrifa bílum og á öllum hugsanlegum aldri. Maður sér ekkert mikið af gömlum fólksbílum en mikið af gömlum pallbílum. Væri alveg til í að eiga svona eins og nokkra.

Umferðarmenningin virðist vera ágætt. Það er allavegana ekkert mál að hjóla þótt maður þurfi að vera á götunum af og til. Það er tekið ótrúlega mikið tillit til manns. Töluvert meira en maður á að venjast. Umferðin er frekar afslöppuð og lítið um sjánlegan hraðakstur.

En best að láta þetta nægja í bili um Ameríkuna.

Svo er það afmæli dagsins.
Ef minnið bregst mér ekki þá á hún Dísa frænka mín afmæli í dag, 17 ára stelpan, til hamingju með það og farðu varlega í umferðinni :)

Kveðja Olgeir

søndag 8. juli 2007

07.07.07

Í dag var okkur boðið í grillveislu hjá einum sem vinnur á rannsóknarstofunni hjá Lauren. Hann býr næstum út í sveit eða er alltént með stóra lóð þar sem hann hefur 2 hesta, 2 asna, 3 hunda, slatta af hænsum og kött. Hann bauð öllum í grill þar sem honum hafði áskotnast grís sem hann svo heilgrillaði.

Þetta var ljómandi skemmtilegt að sjá og mjög notaleg stemning. Myndir má sjá í myndaalbúminu.

Kveðja,
Ragga

fredag 6. juli 2007

Myndir

Ég setti inn nokkrar myndir, látum gæðin liggja milli hluta.

Annars er allt fremur tíðinda lítið. Á meðan Ragga er í skólanum hjóla ég um bæinn og nærliggjandi sveitir. Keypti mér fína kortabók, svona til að rata heim og svo er ég með reiðhjól í láni. Það er enginn græja, en virkar ágætlega eftir örlitla aðlögunar meðferð með eins dollars skiptilykli. Hér er ágætt að hjóla, frekkar slétt allt saman. Verst að maður þarf stundum að vera á götunum þar sem ekki er mikið um stíga eða stéttir en það er tekið ágætis tillit til manns.

Kveðja Olgeir

Þrumuveður

Núna er þrumuveður. Fyrst heyrðum við þrumur í fjarska og svo var eins og væri skrúfað frá krana, stórum krana, hef sjaldan eða aldrei séð svona mikla rigningu. Enda er allt stórt og mikið í Ameríku... nema kannski gangstéttirnar.

Kveðja Olgeir

torsdag 5. juli 2007

Þjóðhátíðardagurinn 4.júlí

Þá erum við búin að upplifa bæði þjóðhátíardag Norðmanna og Kanamanna. Það er óhætt að segja að Norðmennirnir taki daginn sinn heldur hátíðlegri heldur en Bandaríkjamennirnir. Okkur var boðið í garðpartý með stelpunni sem við leigjum hjá. Veislan var haldin í einbýlishúsi á stærð við hótel með garði á stærð við ágætis sumarbústaðalóð. Boðið var upp á grillmat og alls konar góðgæti. Mest var þetta fólk sem vinnur á rannsóknarstofunum í sjávarlíffræðihluta háskólans.

En til að byrja á byrjuninni þá flugum við hingað yfir á mánudaginn. Við fórum frá Tromsö um 7 leytið um morguninn og flugum til Osló þar sem við biðum í 6 tíma. Þá flugum við yfir til Íslands þar sem við biðum í 2 tíma. Það var mjög furðulegt að koma heim og fara strax aftur..hálf glatað.. en þannig er það nú bara. Þá tók við næstum 6 tíma flug yfir til Boston. Vegabréfaeftirlitið var ekki nærri eins strangt og við vorum búin að ímynda okkur og voru karlarnir bara kammó. Frá flugvellinum tókum við leigubíl á hótelið sem reyndist vera bara mjög fínt hótel eftir allt saman. Það var ótrúlega gott að sofna eftir um 22 tíma ferðalag. Daginn eftir tókum við svo leigubíl á South Station þar sem við tókum Greyhound rútu til New London. Það var um 3 tíma ferð og sá maður svo sem ekki mikið fyrir trjám nema í borgunum. Við fórum í gegnum Providence og einhverja smábæi. Svo þegar við síst bjuggumst við, í miðju skógarþykkninu, komum við að risastóru spilavíti .. og svo öðru aðeins lengra í burtu ekki síður stóru sem á að opna nú í sumar. Þar fóru flestir farþegarnir út. Þessi spiavíti eru víst þau stærstu í landinu fyrir utan Las Vegas.

Þegar við komum til New London vorum við sótt af stelpunni sem við leigjum af. Hún heitir Lauren og er phd nemi við UConn háskólann. Íbúðin er í 4 íbúða húsi og það eru geðveikislega þykk teppi á henni allri. Við erum með eitt herbergi sem er ágætlega rúmgott. Ísskápurinn og eldavélin eru í algerri yfirstærð eins og allt í þessu landi.

Við fórum að versla í gær þar sem allt er lokað í dag. Búðin er í minni kantinum á usa mælikvarða en við týndumst strax. Olli villtis í grænmetisdeildinni á meðan ég tapaði mér í kökulagernum og ostadeildinni. Við eigum algerlega eftir að rannsaka ísdeildina en hún virtist heldur stærri en Svalbardbutikken..í heild.

Í þessu landi er ekki gert ráð fyrir að fólk fari neitt labbandi og varla hjólandi. Í Groton eru varla neinstaðar gangstéttar og það er enginn eiginlegur miðbær. Þar sem miðbærinn ætti að vera er kafbátasmiðja og þyrluverkstæði. Einnig er gólfvöllur í miðjunni á byggðinni. Einbýlishúsin eru alls ráðandi og eru þau stór með stórum lóðum. Víðast hvar leynast líka gamlir bílar inn á milli sem eru að freista Olla doldið.

Háskólasvæðið er niður við sjó. Það er nokkuð stórt og samanstendur af eiginlega alveg nýjum byggingum og byggingum frá hernum sem voru byggð um 1930-1940. Við kíktum aðeins inn í rannsóknastofubyggingarnar þar sem við vorum að leita að kæliboxum og ís fyrir veisluna. Þeir eru með sér byggingu fyrir tilraunir sem nota ferskan sjó og sýndi Lauren okkur möttuldýrin sem hún er að vinna með.

Á morgun fer ég svo í fyrsta skiptið í vinnuna. Það verður eitthvað fróðlegt :p

Olli tók nokkrar myndir og við reynum að setja þær inn fljótlega.

Svo eru það afmælisbörnin þessa dagana:

Afi Karl hefði orðið 100 ára þann 2. júlí
Pabbi átti afmæli í gær þann 3. júlí
og Guðbjörg á svo afmæli í dag 4. júlí

Til hamingju með það :)

Annars bara bless í bili frá risalandinu,
kv
Ragga og Olli

lørdag 30. juni 2007

Myndir

Við settum inn myndir frá túr 21. júní til Pyramiden sem er yfirgefinn rússneskur kolanámubær á Svalbarða. Einnig nokkrar myndir frá síðustu dögunum í Longyearbyen og þeim fyrstu í Tromsö.
Kv. Olgeir

torsdag 28. juni 2007

Tromsö

..er geðveikislega græn! og það er búið að vera ferlega heitt líka eða um 17°C í skugga. Sem betur fer á þó að kólna þegar nær dregur að helginni. Ég hélt ég myndi bráðna O.o Þetta hlýtur þó að venjast en það er ekki laust við að ég sakni svalbarðska sumarsins :p

Á mánudaginn næsta fljúgum við svo vestur um haf og endum í Boston. Þar verðum við í eina nótt áður en við höldum áfram með rútu til New London þar sem verðum sennilega sótt. Ferðin endar svo í Groton þar sem við vorum búin að fá herbergi. Æsispennandi sem sagt..

Ragga

tirsdag 19. juni 2007

Með

túpu af kavíar og pakka af hrökkbrauði er maður fær í flestan sjó. Fljótlegt gott og næringarríkt.

Það er helst að frétta að við erum komin með íbúð í Tromsö. Þetta er vonandi fín íbúð, heilir 35 fermetrar, tvö herbergi, eldhús á stærð við meðal hraunsprungu og bað. Þetta er stúdenta íbúð þannig að hún er með húsgögnum og helstu tækjum. Við erum ánægð með þetta því að flest á almenna markaðinum eru kjallarar og ekki með húsgögnum, nema maður fari í háar fjárhæðir eða langt frá háskólanum. Stúdentagarðurinn heitir Storskogåsen og er við Luleåvegen. Hér er hægt að sjá gagnvirkt kort af Tromsö. Hægt er að leita eftir heimilisfangi. Þið lendið sirka á réttum stað með að nota Luleåvegen númer 15.

Annars er lítið að frétta. Ég er búinn að vera að berja saman bréf til að sækja um vinnur, það tekur alltaf töluverðan tíma að skrifa rétt á norsku en hefst þó. Ég er líka byrjaður að pakka í kassa til að gera klárt til að senda til Tromsö. Það eru ekki nema tæpir sex dagar eftir, hérna á Svalbarða, hjá okkur.

Hér í Longyearbyen er á ferðinni gamall Bens, svona tuttuguogfimmára gamall haugur sem má muna fífil sinn fegri. Þessum bíl aka guttar sem eru sennilega ný komnir með prófið og stoppa því ekki á rúntinum. Sennilega er bæði biluð handbremsa og startari í þessum bíl. Ég hef séð til þeirra í tvígang þar sem þeir koma keyrandi, stoppa, einn hendist út og setur ýmist stein eða gamlan tjakk fyrir hjól svo bíllinn renni ekki. Og ekki er hægt að drepa á.
Þessir taktar minntu mig aftur á annað. Fyrir nokkrum árum vorum ég, Reynir og Elvar á rúntinum á gamalli Toyotu Crown sem Reynir átti. Við tókum einn sunnudags eftirmiðdag í smá spól í miðbæ Reykjavíkur. Það fór þannig fram að Reynir keyrði og ég og Elvar sátum í aftursætinu vopnaðir sitthvorum hálfslítersbrúsanum af sjálfskiptivökva. Við keyrðum hægt og rólega Austurstrætið, stoppuðum á miðri götunni, ég og Elvar opnuðum afturhurðirnar og sprautuðum slatta af sjálfskiptivökva á afturdekkinn á meðan Reynir stóð bremsur og bensín í botni. Úr þessu varð ansi myndarlegur reykur yfir miðborg Reykjavíkur. Það er vert að taka það fram að sjálfskiptivökvatrikkið var eina leiðin til að fá Toyotubrakið til að spóla.

En látum þetta nægja í bili.

Kveðja Olgeir

mandag 18. juni 2007

17. júní á Svalbarða

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Í tilefni dagsins fórum við í göngutúr upp á Platåberget sem sést hérna beint frá glugganum okkar. Við höfum ætlað að fara þetta nokkuð lengi en létum loks verða af því í dag þar sem veðrið var með eindæmum gott. Sólin skein í heiði og það var næstum vindlaust. Einnig held ég að hitinn hafi verið um 8°C sem er nokkuð gott.

Myndir úr göngutúrnum eru komnar inn á myndasíðuna.

Í kvöld bökuðum við svo kökur til að gera daginn enn hátíðlegri :p og meira að segja þá kom frægt fólk í heimsókn og borðaði af kökunum okkar. Það voru tveir meðlimir hins alræmda gengis Frosen Five en þau voru einmitt að koma úr örlitlum göngutúr í fyrradag. Þau gengu ekki nema 1050 km á 77 dögum. Nokkuð gott það. Í tenglasafninu okkar má finna linki inn á síðuna þeirra.

Önnur síða sem vert er að skoða er síðan hennar Laurel sem bjó með okkur hérna í Brakke 3. Núna er hún í Síberíu, nánar tiltekið Cherskiy þar sem hún vinnur á Permafrost rannsóknarstöð. Þar nota þau 12 tonna skriðdreka til að líkja eftir áhrifum mammúts á gróðurlendi. Skemmtileg lesning en samt algerlega klikkað! Linkinn má líka finna hér

Kærar kveðjur,
Ragga og Olli

torsdag 7. juni 2007

Allt að gerast.. en samt ekki..

Nú styttist óðfluga í að við förum frá Longyearbyen. Þá verður þessum Svalbarðakafla endanlega lokið sem er ótrúlega furðulegt. Hvernig gátu 6 mánuðir liðið svona hratt?? Við erum enn ekki komin með íbúð í Tromsö en það hlýtur að reddast fyrr en seinna.

Mesta stressið þessa dagana hjá mér er að undirbúa sýnin mín fyrir sendingu til Amríku en það er kolólöglegt að senda sýni varðveitt í alkóhóli þangað yfirum. Bölvað vesen :/ en vonandi reddast það. Það versta í stöðunni væri sennilega að tollurinn myndi gera öll sýnin mín upptæk.. hmm.. þá fer ég nú bara heim grenjandi sko!

Olli er að njóta þess í botn að vera í fríi. Það er samt frekar skondið að daginn sem hann hætti þá byrjuðu vinnufélagar hans að vinna hérna fyrir utan Brakke 3. Ég fékk hann svo til að vinna aðeins fyrir mig í dag við að merkja sýnadollur. Annars er hann bara að sinna sýnum andlegu málefnum og hugsa um mótorhjól daginn út og inn. Nú eða þá reiðhjól.. Magnað alveg hreint.

Í gær fórum við í japanskan kvöldverð til Eri og Pekka. Eri hefur áður boðið okkur í japanskan kvöldverð og var gærkvöldið ekki síðra en fyrra skiptið. Við fengum karrýrétt, djúpsteikt grænmeti, shusi og e-ð sem minnti á hið rússneska palmani sem Pierre býr stundum til hérna hjá okkur. Í eftirrétt var svo sætt baunamauk vafið inn í deig og djúpsteikt. Allt ákaflega ljúffengt.

Um daginn vorum við með smá partý með íslensku þema. Þannig var að mamma sendi okkur gommu af alls konar krásum svo við gætum leyft félögum okkar hérna að smakka íslenskan mat. Við elduðum hangikjöt með jafningi og kartöflum og öllu tilheyrandi. Svo vorum við með smá slátur, harðfisk, hákarl, brennivín, malt, appelsín og tópas. Hangikjötið rann voða ljúft ofan í fólkið og ég held að ef Pierre kæmi til Íslands þá væri það bara fyrir maltið og appelsínið..hehe.. Í það heila mæltist þetta vel fyrir þar til kom að hákarlspartinum. Fólkið lét sig samt hafa tvo skammta og brennivín með. Það var samt tekið fram þegar okkur var boðið í japanska kvöldverðinn að hákarlinn mætti alveg vera heima :p

Síðasta föstudag þá var síðasti föstudagshittingurinn þessa önnina. Upp á það var haldið með strandpartýi og var grillað og dansað fram eftir nóttu. Sumir fóru í sundföt og tóku sundsprett í firðinum og enn aðrir fóru ekki í sundföt og tóku samt sundsprett í firðinum. Við vorum líka með varðeld og huggulegheit. Sólin skein glatt allan tímann og mér tókst meira að segja að brenna í framan (takið eftir því) í heimskautamiðnætursólinni.

Kveðja,
Ragga

mandag 4. juni 2007

Ég setti inn link á myndasíðu sem einn af starfsmönnum UNIS heldur úti. Ótrúlega skemmtilegar myndir frá ferðum nútíma heimskautahetju. Myndasíðuna má sjá hér
Settum inn myndir í dag af ísbirninum góða.

Annars allt heldur tíðindalítið. Olli er kominn í frí og ég er að keppast við sýnin mín.

Meira síðar..
kv
Ragga

onsdag 30. mai 2007

Olli heppni aparass

Olli var að hringja í mig rétt í þessu til að monta sig yfir því að hafa séð ísbjörn. Þegar hann var rétt kominn úr mat áðan þá barst sá orðrómur um matsalinn að það gæti verið sniðugt að fara í smá bíltúr út að höfn. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að allir þurstu út og brunuðu á seinna hundraðinu út á Kapp Amsterdam. Þaðan var hægt að sjá bjössa bíða við vök í svona um 150 metra fjarlægð. Hann var ekki mikið að kippa sér upp við allt fólkið sem góndi á hann heldur geyspaði bara og beið eftir næsta sel.

Ég verð bara að sætta mig við að sjá myndir af herlegheitunum. Ég get þó sagst hafa séð ísbjörn með góðri samvisku því ég man ekki betur en ég hafi séð ísbjörninn sem var í Sædýrasafninu sem var og hét :p

Annars bara bla..

kv
Ragga

mandag 28. mai 2007

Myndir

Við settum inn nokkrar myndir frá Barentsburgarferðinni. Endilega kíkja á þær :)

Annars er það helst að frétta að veturinn er kominn aftur. Það er búið að snjóa meira eða minna síðustu 24 tímana. Sem betur fer hefur þó ekki mikið safnast fyrir.

Í gærkvöldi fórum við í smá miðnæturgöngutúr upp í hlíðar Plateufjellet. Þar fundum við drjúgan slatta af steingervingum merkilegt nokk. Gaman að því.

Kveðja,
Ragga og Olli

søndag 27. mai 2007

Samfélagið

Jæja best að blogga smá.
Nú eru flestir Unis stúdentarnir sem við höfum umgengist að fara. Í gærkvöldi vorum við í kveðjuveislu í bragga fjögur þar sem Karlotta býr eða bjó. Þetta var fín kökuveisla sem endaði á að flestir fóru út að spila krikket og hafnarbolta. Það er svolítið sérstakt þegar fólk er að fara, þessum Svalbarðakafla fer senn að ljúka.

Þetta er svolítið sérstakt samfélag hérna á Svalbarða. Ragga telur það karllægt, sem er sennilega rétt. En fyrst og fremst held ég að það sé vélvætt allavegana hjá innfæddum. Hér eiga að sjálfsögðu allir vélsleða eins og ég hef oft minnst á. Einnig eru ótrúlega mörg mótorhjól og skellinöðrur hér. Ragga telur að mótorhjóla eignin sé engöngu af praktískum ástæðum, það er til að menn geti notað hjálmana sína allt árið. Hér eru börn alin upp í mótorsamfélagi. Á veturnar renna krakkar sér á sleðum sem hafa útlit vélsleða. Aðal vetrarsportið er að láta foreldrana draga sig með vélsleða á skíðum eða sleða. Núna eru allir krakkar komnir á reiðhjól og stunda stíft prjón og stökk æfingar á planinu við búðina, og eru bara nokkuð góð að prjóna. Við barna og unglingaskólann er sérstkakt skilti sem vísar á stæði fyrir skellinöðrur og mótorhjól. Á Íslandi hefði engöngu verið sett upp skilti sem bannaði skellinöðrur og mótorhjól.
Ég er kominn með vott af mótorhjóladellu. Ég er ekki viss um hvort þetta er þessi árlega vordella eða hvort hún risti dýpra. Í ár eru tíu ár síðan ég átti síðast mótorhjól. Það gæti verið gaman að halda upp á það með því að kaupa sér eins og eitt BMW ferðahjól, svona malbiks og malarvega hjól. Sá eitt auglýst hérna um daginn á fínu verði....
Næsta vika verður sennilega síðasta vikan mín í vinnu hér á Svalbarða og ég mun að öllum líkindum eyða henni í Svea samkvæmt venju. Ég hafði látið hvarfla að mér að vinna eina viku til en verkefnastaðan er víst ekkert alltof góð hér í Longyearbyen og ég er ekki tilbúinn að vera í Svea fram á síðasta dag. Auk þess er ég ekkert mjög spenntur fyrir ilmandi klóakverkefnum.

En jæja núna er best að fá sér göngutúr eða að lesa mótorhjólablað.

Kveðja Olgeir

søndag 20. mai 2007

19.maí Barentsburg

Við fórum til Barentsburg með bát núna á laugardaginn. Við lögðum af stað frá Longyearbyen klukkann níu um morguninn og komum til baka um kvöldmatarleytið. Þetta var að mörgu leyti ágætis túr, að vísu hefði veðrið mátt vera aðeins betra. Báturinn sem við fórum á var 27m langur stálbátur frá 1954 og heitir MS Langöysund. Ágætt skip nema það gekk alltof hægt. Við byrjuðum á að fara út og yfir Ísfjörðinn og sigldum þar upp að skriðjökli sem kemur fram í sjóinn. Þar sigldum við aðeins inn í hafís sem var svolítið sérstakt. Upp á ísnum lág rostungur, við komumst að vísu bara í kíkisfæri við hann en það var samt flott að sjá hann. Svo var planið að koma hundamat í land þarna en það gekk ekki vegna ís. Upp á landi sá maður fjóra hundasleða, hunda og tjaldbúðir. Svo var grillað um borð og stefnan tekin á Barentsburg. Við komum til Barentsburg um klukkan tvö og höfðum því bara eina og hálfa stund þar sem var allt of lítið. Við höfðum rússneska leiðsögumenn sem sýndu okkur bæinn og fræddu. Í lokinn gátum við svo rétt komist á safnið og mynjagripabúðina. Alltaf uppgvötvar maður eitthvað nýtt um Barentsburg. Barentsburg var svo til sjálfbær bær á tímabili. Þar var kúabú, svínabú og gróðurhús sem sá þeim fyrir matvælum. Núna er bara svínabú með um 100 svín.
Á heimleiðinni var svo siglt meðfram ströndinni og hún skoðuð.
Við tókum ekki nema 315 myndir, við erum ekki búinn að velja úr ennþá en það kemur.

Kv. Olgeir

17. maí

17. maí er þjóðhátíðardagur Norðmanna. Fyrst vöknuðum klukkann sjö við trumbuslátt. Ég leit út um gluggann og sá mann marsera niður götuna og slá takt. Þetta var til að vekja í fyrstu hátíðarhöld dagsins. Klukkann hálftíu vöknuðum við aftur og þá við blástur lúðrasveitar Store Norsk. Þeir spiluðu það lengi hér í Nybyen að maður komst ekki hjá því að vakna og gera sig kláran í skrúðgöngu. Rétt fyrir ellefu vorum við svo farinn að marsera í þeirri lengstu skrúðgöngu sem ég hef séð. Það hefur ábyggilega verið megin þorri landsmanna í henni. Allir voru mjög fínt klæddir, karlar í jakkafötum og konur í þjóðbúningum. Dagurinn virtist vera tekinn mjög hátíðlega miðað við klæðaburð. Eftir skrúðgönguna var svo kaffi og kökur fyrir alla í íþróttahúsinu.

Kv. Olgeir

16. maí

Að kvöldi 16. maí var grillveisla í vinnunni hjá mér. Hún var ágæt og lærðum við það helst á henni að ef maður drekkur of mikið úr klósettinu á þá hlýtur maður þynnku að launum. Verkstæðinu var breytt í veislusal. Þar var slegið upp langborði út brettum og krossviði. Á miðju borðinu var svo klósett sem blönduð var í bolla. Að sögn var klósettið ónotað. Bollan var blönduð í vatnskassann og útbúinn krani á inntakið, þar tappaði maður á glösin. Ísinn var svo hafður í skálinni og mokað í glösinn með vatnslás af vaski. Ég set inn mynd af fyrirbærinu við tækifæri.
Annars fór grillið vel fram og maturinn var fínn. Maður náði að spjalla ágætlega við fólkið og meðal annars sýndi verkstjórinn minn mér Triumph mótorhjól sem hann á. Þetta er nýtt hjól en í gömlum stíl, enduro stíl og 900cc flott græja.

Kv. Olgeir

mandag 14. mai 2007

Þoka

Ég hef ekki komist til Svea ennþá vegna þoku. Hugsanlega verður hægt að fljúga í kvöld en ég vona eiginlega ekki svo maður nái einni nótt í viðbót hér heima :)

Núna á miðvikudagskvöldið er fyrir hugað að hafa grillveislu í vinnunni hjá mér. Miðvikudagurinn er dagurinn fyrir 17. maí sem er þjóðhátíðardagur Norðmanna og þá er frí. Ég var því settur í það í dag að þrífa verkstæðið hátt og lágt svo það yrði grill hæft.

Í morgun sá ég gæsahóp sem sennilega var ný kominn. Þetta eru fyrstu gæsirnar sem ég sé hér í Longyearbyen en áður hafði ég séð eina flækingsgæs í Svea.

Bless í bili Olgeir

søndag 13. mai 2007

Nokkur orð

um Norðmenn.

Brúnosturinn er heilagur hjá Norðmönnum, það má eingöngu borða hann eintóman eða með sultu ofaná brauð. Ég hef nokkrum sinnum fengið nokkuð hvassar athugasemdir í mötuneytinu í Svea þegar ég hef notað brúnostinn með spægipylsu, salati, gúrkum eða hverju sem er. Þar af leiðandi geri ég í því að borða brúnost með öllu hugsanlegu.

Ansi margir hafa komið til Íslands og byrja oftast á að minnast á það að þeir hafi ekki getað keypt ,,snús" þar það er munntóbakk Íslandi.

Flest allir Norðmenn hafa séð kvikmyndina 101 Reykjavík og minnast á það glottandi að fyrra bragði.

En nóg um Norðmenn í bili.

Ég er farinn að leita mér að vinnu í Tromsö. Ég sendi eina umsókn áðan til SAS, þeim vantar viðgerðamann á flugvöllinn í Tromsö. Gaman að sjá hvað kemur út úr því. Ég ætla að reyna að finna mér vélvirkja starf, ef það gengur ekki reynir maður við pípulagnir, það vanntar víst mikinn mannskap í lagnavinnu á svæðinu.

Annars er lítið að frétta. Síðasta vika var óvennju skemmtileg og fljót að líða. Á föstudaginn fór ég svo á smá námskeið hér í Longyearbyen. Þannig að þetta hefur verið frekar löng helgi, þannig séð. En svo er það aftur Svea á morgun. Það fer nú að sjá fyrir endann á þessari vinnu, ég vinn sennilega bara út maí og hætti þá kannski viku lengur.

Nú er hitinn aðeins farinn að stíga upp fyrir frostmarkið og aðalvegurinn orðinn klakalaus. Það er rosa munur að labba á malbiki en ekki klaka. Maður er orðinn svo stífur á að labba á klaka í fjóra mánuði.

Kveðja Olgeir

onsdag 9. mai 2007

R/V Jan Mayen

Þá er ég búin að prufa að fara smá túr á Jan Mayen. Við fórum út á mánudags- og þriðjudagsmorguninn með hóp af stúdentum og tókum sýni í Isfjorden. Kúrsinn er þverfaglegur og voru krakkar úr eðlisfræði og jarðeðlisfræði á meðal líffræðistúdentanna. Það tók doldið á að kenna þeim sem ekki voru með líffræðilegan bakgrunn því þá þurfti að útskýra hluti eins og flokkunarkerfið almennt og allt eftir því. En það var bara gaman og lærdómsríkt svo er líka alltaf gaman að pretika að dýrasvif sé það merkilegasta í heimi :p

Við fengum fínt veður en það var samt hluti af stúdentunum sem varð sjóveikur. Það er ekkert grín að sitja við smásjá í veltingi og greina magainnihald :p Lyktin hjálpar í það minnsta ekki.

Nóttin á milli kennsludaganna kom Claudia um borð og við tókum dýrasvifssýni í Billefjorden. Það var því ekki mikið um svefn. Vorblóminn er byrjaður eins og við fengum að finna fyrir. Yfirborðssýnin voru algerlega græn og það tók óratíma að hreinsa þau. Algert pain! Og ef það er eitthvað sem lyktar illa þá eru það þörungar :p

Túrinn var líka fín norskuæfing þar sem áhöfnin talaði bara norsku við mig og ég neyddist til að gera slíkt hið sama. Það er fáránlegt hvað það er mis-erfitt að skilja fólk eftir því hvaðan það er í Noregi.

Dagurinn í dag fór svo í smá panikk. Vegna misskilnings hélt ég að ég hefði notað vitlaust alkóhól á sýnin mín og þau væru öll ónýt. Þá er ég að tala um öll sýnin sem ég hef tekið yfir höfuð. Eins og gefur að skilja fékk ég vægt áfall.. eða ekki vægt.. En eftir að hafa talað við framleiðandann þá komst það á hreint að þetta var rétt efni. Hjúkk segi ég nú bara.

Kveðja,
Ragga

lørdag 5. mai 2007

Flugvélinn

Skíðaflugvélin sem ég hef áður minnst á er af gerðinni Basler BT-67 Turbo-67. Hún virðist einnig kölluð Turboprop DC-3. Þessi vél er frá kanadíska flugfélaginu Kenn Borek Air. Þessi skíðaútbúnaður er svolítið flottur. Skíðin ganga upp með hjólunum þannig að hún getur jafnt lennt á venjulegri flugbraut sem og snjó.

Kveðja Olgeir

fredag 4. mai 2007

ooog thad var helst i frettum..

..ad sledinn er formlega seldur. Karlinn kom og nadi i hann i gær og borgadi.

..Olli kemst ekki heim i dag eins og aætlad var vegna vedurs. Thad er bædi hvasst og snjokoma og thad er rett eins og veturinn se ad koma aftur.

..Vid førum fra Longyearbyen 25.juni og verdum i Tromsø fram til 2. juli thegar vid førum vestur um haf. Vid verdum svo i stora landinu til 8. agust.

..adan flutti eg 500 kg af hundamat ut i kofa vid flugvøllin, ad "hundagardinum" og upp i Nybyen a eldgømlu Volkswagen rugbraudi. Gaman ad thvi.

Annad var thad nu ekki i bili
kv
Ragga

tirsdag 1. mai 2007

Sleðinn er seldur

Héðan er svo sem lítið að frétta. Ég útbjó auglýsingu fyrir vélsleðann og hengdi upp í búðinni og Unis í gær. Ég átti nú ekki von á miklum viðbrögðum þar sem sleðatímabilinu fer nú að ljúka. En það kom einn og skoðaði sleðann áðan og keypti hann, þannig að það gekk fljótt fyrir sig. Já svo er nátturulega bara að vona að hann standi við þetta og komi og borgi og sæki sleðann á morgunn.

Ég var í Svea í síðustu viku og fer aftur í fyrramálið. Náði fjórum dögum hér í Longyearbyen núna sem er bara nokkuð gott. Um næstu helgi kem ég svo sennilega ekki heim heldur hitti Röggu og fleirri í skála rétt við Svea og eyði helginni þar. Það verður fínt. Af þessu tilefni fjárfesti ég í svefnpoka í gær. Þetta þýðir að ég kem sennilega ekki aftur í siðmenninguna fyrr en fimmtudaginn 10. maí. Föstudaginn 11. maí er ég svo búinn að skrá mig á smá námskeið til að fá leyfi til ,,varme arbeider" sem sagt leyfi til að vinna með eld, þ.e. suðu og gas, í húsum. Svona til að vera löglegur ef maður kveikir í. Það er víst krafa í Noregi að hafa farið á svona námskeið og hafa sérstakt númer.

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ísbjörn á vappinu í Svea. Hann var því miður farinn á mánudaginn er ég mætti með myndavélina. En ég náði myndum af fótsporunum hans. Þessi björn ætlaði að ná sér í einfalda máltíð og sat um sorpurðunnarsvæðið í Svea. Ég set inn mynd af sporunum á eftir.

Um daginn sagði ég frá skíðaflugvél sem ég sá á flugvellinum hér. Ég náði myndum af henni og set þær inn á eftir. Ef einhver veit hvaða tegund þetta er væri gaman að frétta af því.

Læt þetta nægja í bili

Kveðja Olgeir
Afmælisbarn dagsins i dag er Karen krulla :) Til lukku med daginn.

Klem og knus
Ragga

torsdag 26. april 2007

Til hamingju með afmælið Gissur :) Það er ekki á hverjum degi sem fólk verður fertugt þannig að þetta er nokkuð merkur áfangi :D

Annars allt við það sama..

kv
Ragga

onsdag 25. april 2007

Misheppnaðar aðgerðir og prjónaskapur

Það er allt frekar rólegt hérna á norðurslóðum. Svo virðist sem ég þurfi að halda fyrirlestur um verkefnið mitt á svokölluðu "lunch seminar". Það er fyrirlestraröð þar sem fólk innan UNIS heldur erindi um það sem það er að fást við frá degi til dags. Vonandi verð ég bara komin með einhverjar niðurstöður þegar röðin kemur að mér :P hehe..

Laurel (kaliforníubúinn sem býr með okkur) fór á mánudaginn til Tromsö til að fara í aðgerð á löppinni sem hún braut í desember á síðasta ári. Aðgerðin átti að vera í gær en henni var frestað vegna einhvers vesens með borinn!?! Heillandi.. Aðgerðin var svo framkvæmd í morgun en ekki vildi betur til en svo að eitthvað klikkaði svo hún þarf að fara í aðra aðgerð á föstudaginn.

Áðan varð ég fyrir prjónakennslu. Nokkuð merkilegt það en þannig var mál að vexti að strákurinn sem Olli keypti sleðann af er að vinna hjá Svalbard wildlife service. Þar vinnur hann með norskri stelpu sem er að prjóna lopapeysu eftir íslenskri uppskrift (og úr íslenskum lopa). Hún lenti í basli með að prjónana og sagði í gríni við þennan vinnufélaga sinn hvort hann þekkti ekki einhverja Íslendinga á Svalbarða. Hann mundi eftir okkur frá sleðasölunni en var samt ekki alveg viss hvort hann ætti að þora að hringja ef sleðinn skyldi ekki hafa lifað lengur en söludaginn. Á endanum hrindi hann þó í Olla sem gaf þeim númerið hjá mér og stelpan hringdi svo í mig í morgun. Við mæltum okkur mót á Fruen sem er kaffihúsið á Svalbarða :) og ég hjálpaði henni að setja ermarnar á bolinn. Gaman að því. Hún ætlar svo að kíkja við hjá mér á morgun ef munstrið gengur ekki vel.

..og meira af prjónaskap.. Eitthvað frétti ég af ofurskírnarkjól sem var prjónaður á mettíma af mömmu, ömmu, Hönnu Siggu, Lailu og Erlu. Til hamingju með skírnina og guttann og allt Erla og Birgir :) Það væri ekki verra ef hægt væri að sjá myndir af herlegheitunum ;)

Jæja, best að fara að koma sér í bælið..

kv
Ragga

søndag 22. april 2007

Fuglar og annað fiðurfé

Nú eru svolítil vormerki farin að sjást þó ekki minnki snjórinn mikið. Á föstudaginn þegar ég var að gera mig klárann til heimferðar frá Svea sá ég pínulítinn snjótittling. Fyrsti smáfuglinn sem ég sé hér á Svalbarða. Við fengum okkur svolítinn göngutúr hér um bæinn í dag og þá sá maður fullt af þessum litlu greyjum syngjandi og flögrandi. Sennilega eru þeir að koma núna í hópum. Einnig sáum við fullt af máfum og æðarfugli sem maður hefur ekki orðið mikið var við í vetur. Einnig er sólin kominn í sumarfíling og skín nú allan sólarhringinn.

Annars er helgin búin að vera fremur róleg hjá okkur. Ragga með smá kvef og ég aðallega njóta þess að vera innandyra eftir útivinnuna í Svea, já og ég verð í Svea næstu viku líka. Í gær og í dag fengum við okkur smá göngutúra hérna um bæinn. Aðal markmiðið hjá mér var að taka myndir af snjóbílum og eldri bílum bæjarinns enda nokkuð mikið til af þeim hér. Áðan komum við svo við á kaffihúsinu og fengum okkur almennilegt kaffi og köku. Hér er ekki hlaupið að því að búa til almennilegt kaffi því að einungis er hægt að kaupa tvær gerðir í Svalbardbutikken og báðar eru þær vondar.

Á föstudaginn tók ég mig til og rakaði af mér heimskautaskeggið mitt. Ég var orðinn hálf leiður á því. Þetta vakti töluverða kátínu, sérstaklega þar sem fólk hér hefur ekki séð mig án skeggs. Eftir raksturinn labbaði ég niður í UNIS og það er ekki laust við að ég hafi verið farinn að sakna skeggsins einhverstaðar á fyrstu 500 metrunum. Það er ekki laust við að manni hafi orðið dálítið kalt í framann.

Ég hef aldrei séð jafn margar flugvélar á vellinum hér eins og á föstudaginn er ég kom heim. Þar voru tvær rússneskar Antonov 74 flutningavélar, rússnesk farþegaþota, amerísk einkaþota (eða lítil farþegavél), tvær Dornier 228 og svo ein skíðaflugvél sem lítur út fyrir að vera gömul. Hún er minnir svolítið á DC-3 en er sennilega aðeins stærri, appisínugul og dökkblá. Ég spjallaði við pabba og hann hafði einhvern tímann séð rússnenska vél sem leit út eins og DC-3 nema bara öll aðeins stærri. Í gærkvöldi frétti ég svo fyrir tilviljun að einhverjir Rússar væru að fara að fljúga á norðurpólinn. Hugsanlega tengist þessi vél því.
Það er ekki laust við að smá áhugi á flugvélum og þyrlum hafi kviknað hjá mér eftir allar þessar flugferðir til Svea. Í Svea hefur maður svo þyrlu fyrir augunum alla daga. Hún er notuð til að flytja díselolíu í jarðbor sem er að leita eftir nýjum námusvæðum einhvers staðar upp í fjöllum. Framan af var notaður snjótroðari. Hann þurfti meðal annars að keyra eftir hafís til að komast á staðinn. Í einni ferðinni, í mars byrjun, brotnaði undan honum ísinn og hann sökk á 42m dýpi. Ökumaðurinn, maður um sextugt, þurfti að bíða eftir að ökumannshúsið fylltist af sjó áður enn hann gat opnað og komist út. Hann komst upp í vökina og gat komist upp úr. Hann labbaði svo án húfu og á sokkaleistunum 3 km í -20°c frosti og myrkri. Hann sá ljósin í Svea og gat tekið stefnuna á þau. Hann náði að skríða síðustu metrana upp á veg þar sem vörubílsstjóri fann hann á síðustu stundu. Maðurinn náði sér að fullu eftir þetta.

En jæja best að láta þetta nægja í bili.
Kveðja Olgeir

fredag 20. april 2007

Gledilegt sumar

Tha er sumarid gengid i gard.. a Islandi. Herna vottar ekki fyrir sumri frekar en venjulega. I gær var fyrsti dagur midnætursolar og thydir thad ad nu er engin nott lengur. En thar sem Longyearbyen er i holu tha faum vid enga midnætursol herna, thad er varla sol a daginn. Serstaklega ekki i Nybyen.

En hvad um thad..

Eg bakadi køku i tilefni sumarsins i gær og mæltist thad vel fyrir hja eldhusfeløgum minum. Vid atum a okkur gat af thessari finu gulrotarkøku og thad er meira ad segja sma afgangur handa Olla sem kemur heim med siddegisfluginu a eftir :)

Gledilegt sumar,
kv
Ragga

onsdag 18. april 2007

Það er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang..

Ég komst heil heim úr feltinu í gær. Það var prýðilegt veður og hefði ekki geta verið betra, -15°C, logn og sól. Leiðin var frekar auðveld sem betur fer. Það var bara á einum stað þar sem maður þurfti að beita sér e-ð að ráði en það var þegar við vorum að fara upp á jökulgarðinn fyrir framan Nordmannsfonna. Það slapp samt allt til ;) Þegar við komum í Mohnbukta, þar sem við tókum sýnin, sáum við yfir til Barentsöya. Það er fyrsta eyjan sem ég sé af Svalbarða fyrir utan Spitsbergen en allt í allt eru þær frekar margar.

Við sáum enga ísbirni og ekki einu sinni slóð eftir þá sem er mjög óvenjulegt fyrir þetta svæði. Snjórinn var frekar þykkur á ísnum og ísinn var ekki síður þykkur sem var ekki að auðvelda vinnuna. Það tók næstum 2 tíma að komast niður úr honum og síðasta bitanum þurftum við að kippa upp með vélsleða.

Sýnatakan gekk vel og náðust öll sýni í hús. Það er meira að segja Pseudocalanus í þeim þannig að þetta var ekki farið til einskis. Húrra fyrir því :) Eftir sem áður notuðum við vélsleða til að draga háfinn upp og gekk það bara mjög vel. Claudia tók svo lifandi sýni fyrir sig og komust kvikindin lifandi í hús. Til þess að það gangi upp þarf að setja þau á hitabrúsa og vona svo hið besta.

Svo virðist í augnablikinu sem við Olli séum á leiðinni til USA (eða US and A eins og Borat sagði..) í júlí. Það er löng saga hvernig það kom til en meiningin er sem sagt að ég heimsæki rannsóknastofu Ann Bucklin í Connecticut. Þetta er bara á teikniborðinu ennþá en ef af verður þá er það eflaust mjög gagnlegt. Áætluð dvöl er einn mánuður nema annað komi í ljós.

Ég set svo inn nokkrar myndir úr feltinu (sem nú er formlega lokið..í bili).

Kveðja,
Ragga

mandag 16. april 2007

Smá snjóflóð

Rétt áðan kom smá snjóskriða hérna niður fjallshlíðina fyrir ofan okkur. Við vorum ný komin út er við heyrðum þyt eða gný og litum upp. Þá var partur af einni hengjunni á leiðinni niður. Þetta var nokkuð töff og tók ótrúlega langan tíma að skila sér niður brekkuna, sennilegqa 20-30 sekúndur. Þótt þetta hafi verið lítið brot úr hengju þá var þetta orðið nokkuð breitt er það stoppaði. Að sjálfsögðu var ég ekki með myndavélina á mér, ég hefði haft tíma til að kveikja á henni og smella af. En ég set inn myndir af verksummerkjum.

Helgin er búin að vera nokkuð viðburðarrík. Í gærkvöldi útbjuggum við útigrill og grilluðum hvalborgara (hamborgarar úr hvalkjöti) og banana. Ansi skemmtilegt og minnti mann á sumarið þrátt fyrir töluverða snjókomu.

Á laugardaginn skruppum við sleðavæddu braggabúarnir inn í Björndalen að kíkja á ,,hyttu" það er skála sem UNIS á þar. Þetta er fínn skáli og fallegt umhverfi. Meðal annars var ágætur hreindýrahópur í færi við skálann. Á leiðinni heim komum við við á skotsvæðinu og æfðum svolitla riffil skotfimi með Mauserunum. Ég er alltaf að verða ánægðari og ánægðari með riffilinn, setur mjög vel. Á leiðinni heim tókum við smá lykkju upp á Longyearbreen svona til að fá útrás fyrir hraðann. Kvöldið var svo rólegt hjá mér en Ragga skellti sér aðeins á Huset með stelpunum og bróðir Laurel sem var í heimsókn.

Ég mætti aftur í vinnuna í morgun eftir fríið mitt. Það var ágætt að koma aftur og byrja að vinna þrátt fyrir að maður hafi nú ekkert verið voðalega vel stemdur fyrir það. Fínt að vera í fríi. Í fyrramálið flýg ég svo til Svea og verð að vinna þar út vikuna. Smjatt smjatt gott að borða í Svea.

Ragga er að fara í felt ferð á morgun. Hún fer til aðal heimkynna ísbjarnanna það er á austurströndina. Nánar tiltekið í Mohnbukta í Storfjörden. Þetta á að sleppa sem dagstúr, gæti orðið langur dagur. Þau fara á vélsleðum og er þetta um 180km túr. Þau eru að fara að taka dýrasvifssýni, að venju, og gera það gegnum vök á hafísnum.

En jæja, ég læt þetta nægja frá mér í bili. Ég set kannski inn nokkrar myndir.

Kveðja Olgeir

fredag 13. april 2007

Myndir

Ég setti inn nokkrar myndir sem ég tók með nýju vélinni. Þær eru nú bara teknar á auto stillingu og án allra vísinda. En þær eru nokkuð skýrar og ég mæli með að súmma inn í þær því þá sést fyrst hvað þær eru skýrar. Hægt að skoða allskonar smáatriði. Bara gefa sér tíma í að stækka og færa þær fram og aftur. Ég setti þær inn í fullri stærð þannig að það gæti tekið svolítinn tíma að ná í þær. (uppl. fyrir mömmu og pabba)
Já og vélin sem ég endaði á að kaupa er af gerðinni Nikon D80 með 18-135mm linsu.

En best að halda áfram að njóta síðasta virka frídagarins í bili.

Kveðja Olgeir

torsdag 12. april 2007

Svona bara

Hún Lilja Sóley frænka mín á afmæli í dag. Hún er fimm ára í dag. Hamingju óskir frá okkur Olgeiri og Röggu Lilja mín.

Finnar eru jafn skrýtnasta fólk sem ég hef kynnst. Hef ég minnst á það áður ?

Eftir að hafa lesið dóma, á netinu, um myndavélar í nokkra daga, komst ég ekki að niðurstöðu um hvaða vél væri best að kaupa. En ég komst að niðurstöðu með hvaða vél fylgdi besta linsan fyrir mig. Þannig að ég fór áðan og keypti mér fína myndavél. Ég er búinn að prófa hana, taka nokkrar myndir. Þær eru hreint út sagt frábærar, litir og skýrleiki. Ég er ánægður. Ég ætla að halda áfram að taka myndir af einhverju sem er langt í burtu :)

Kveðja Olgeir

tirsdag 10. april 2007

Ég setti inn nýjar myndir úr feltinu í Austfjorden og Billefjorden sem ég fékk frá Claudiu. Einnig voru nokkrar myndir frá Stefani.

Kveðja
Ragga

mandag 9. april 2007

Myndavélar og páskar

Jæja núna eru páskarnir að líða. Ég hef nú ekki afrekað mikið aðalega haft það gott og borðað. Við braggabúarnir elduðum saman lambakjöt í gærkvöldi. Það heppnaðist mjög vel enda kryddað á íslensk/franska vísu. (Það er af Íslending með örlitlum afskiptum frá Frakka). Við náðum sem sagt öllu rollubragði úr kjötinu sem margir virtust óttast og aðalega þekkja lambakjöt fyrir. Í eftirrétt höfðum við svo bláberjaböku og stóreflis rjómatertu. Þessu var svo öllu skolað samviskusamlega niður með rauðvíni og bjór.
Við gerðum heiðarlega tilraun til að bjóða Japananum, sem er ný fluttur hingað í braggann, að borða eftirréttinn með okkur. Það gekk ágætlega framan af en okkur þótti hann heldur slappur að sjá. Svo þegar aðeins leið á kvöldið buðum við honum heimalagað þurkað selkjöt og vodka. Þá rauk hann á fætur og út úr eldhúsinu. Okkur leist nú ekkert á þetta og fórum að athuga með hann og fundum hann faðmandi postulínsskálina. En það voru nú skýringar á þessu öllu, hann var með flensu en sennilega verið of kurteis til að neita að fá sér kökur þegar við buðum honum og lyktin af selkjötinu farið með hann.

Ég er að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Það eru eiginlega tvær sem koma til greina. Það eru Canon EOS 400D og Nikon D40X. Ef einhver hefur rökstudda (og tilfinningalausa :P) skoðun á málinu þá endilega gefið álit.

Kveðja Olgeir

søndag 8. april 2007

Barentsburg

Best að byrja á því að óska öllum gleðilegra páska.

Ég skrapp til Barentsburgar í gær. Barentsburg er sovéskur kolanámubær hér aðeins utar á Ísfirðinum. Við fórum á þremur vélsleðum og gekk ferðin vel. Þetta eru um 60 km aðra leið. Meiri parturinn af leiðinni er stikaður frá fyrri tíð og það eru sko engar nútíma plast stikur, nei það eru stikur úr sovésku stáli sem hafa ekki látið á sjá í 50 ár.
Það er upplifun að koma til Barentsburgar eftir að hafa hýrst innanum timburkofa Norðmannanna. Í Barentsburg eru flest hús úr steinsteypu, múrsteini og með bárujárn á þökum. Allt timburverk er meira og minna útskorið eða útsagað í flúr. Þessi hús eru enginn smá smíði, upp á 3-5 hæðir. Bærinn byrjaði að byggjast um 1932. Sennilega hefur mesti uppgangurinn verið milli 1970 og 1990. Barentsburg hafði á tímabili 3000 íbúa (í það minnsta húsnæði fyrir 3000) en eru ekki nema um 300 til 800 núna (fer eftir heimildum). Ég hef grun um að húsum og öðru hafi ekki verið mikið haldið við síðustu 15 árin. En miðað við það eru þau í frábæru standi og verið mjög góð að upplagi.
Á mörgum húsanna eru myndir, stórar málaðar myndir af hraustum, ánægðum og lífsglöðum verkamönnum. Á einum gaflinum var málað stórt kort af Svalbarða og öðrum var 30fm sumar mynd úr skógi. Og að sjálfsögðu er stór stytta af Lenín á torginu. Mjög fallegt.
Þetta virðast hafa verið miklir smiðir þarna á ferðinni og haft tíma til að leyfa sér að flúra. Þarna er mikið smíðað úr stáli og þeir hafa aðeins leyft sér að skreyta um leið í flestum hlutum.
Það er svolítið sorglegt að sjá hvernig allir þessir hlutir fara eftir að sovéska heimsveldinu var kippt úr sambandi, sjá hvernig verðmætir hlutir grotna og eyðileggjast. Þetta er svona eins og bál sem er að deyja út.
Það er nokkuð ljóst að ég verð að koma þarna bráðlega aftur og gefa mér betri tíma í myndatökur og skoðanir.
Á heimleiðinni komum við svo við í Colesbukta sem er yfirgefin sovésk höfn. Þar var skipað út kolum frá Grumantbyen. Þetta lagðist af um 1964 hef ég heyrt. En húsin standa nokkuð vel ennþá.
Ég set inn nokkrar myndir úr túrnum.

Á eftir ætlum við að elda lambakjöt í tilefni páskanna. En það er svo merkilegt, alltént miðað við úrvalið í búðinni hér, þá virðast Norðmenn ekki vera sjálfbjarga um kjöt. Eina lambakjötið sem er á boðstólnum hér er nýsjálenskt, nautakjötið er að mestu frá Brasilíu og svínakjötið danskt.

Kveðja Olgeir

onsdag 4. april 2007

Sleðatúr

Við héldum upp á afmælið mitt í gær. Ég bakaði smávegis og keypti smá bjór. Svo fyrir einskæra tilviljun dreif Pierre mig með sér upp á skotsvæði um klukkan fimm í gær að skjóta. Það var mjög gaman og riffillinn virkaði mjög vel og setti vel. Við komum svo til baka um klukkan 7. Þá var fólkið hér á hæðinni búið að skreyta eldhúsið og baka fleiri kökur. Þetta var svolítið gaman og kom mér nokkuð á óvart. Við átum svo kökur og drukkum bjór fram undir miðnætti. Mjög fín veisla.

Í dag fórum við sleðaeigendurnir í Bragga 3 í vélsleðatúr. Við fórum á þremur sleðum. Ragga forfallaðist reyndar strax í byrjun. Hún var svo aum í rófubeininu eftir sleðabyltur síðustu viku að hún treysti sér ekki til að sitja á sleðanum svona langt.
Við keyrðum inn Adventdalen, upp Helvetidalen, niður De Geerdalen, að Hyperitfossen, sáum yfir Sassen Fjorden, keyrðum svo upp Wimandalen, yfir Knorringbreen, niður Hanaskogdalen og þaðan aftur inn í Adventdalen. Þetta var fínn túr, um 85km í fjölbreytu landslagi. Þetta gekk vel að mestu. Ég festi að vísu sleðann einu sinni. Þá lögðum við af stað niður vitlaust gil og þurftum að snúa við. Ég var ekki alveg nógu ákveðinn og spólaði mig niður. Það kostaði svolítinn gröft en bjargaðist allt. Svo fundum við rétta gilið. Þetta er fyrsti almennilegi túrinn sem ég fer í á sleðanum. Hann kom bara ágætlega út þrátt fyrir að vera slitinn og þreyttur. Aftur fjöðrunin er að vísu í stífari kantinum, þarf að prófa að slaka á henni. Ég setti inn örfár myndir úr þessum túr. Einnig myndir úr afmælinu.

Kveðja Olgeir

tirsdag 3. april 2007

Gamlir sleðar gamlar konur

Einhvern tímann í vetur setti ég inn mynd af tveimur gömlum vélsleðum er stóðu hérna rétt fyrir ofan. Þetta eru tveir Arcticat svona um 1980 módel. Þeim virtist og hefur verið lagt þarna fyrir fjöldamörgum árum og pakkað í segl. Seglið var orðið morkið og ég hafði ekki trú á öðru en dagar þessara sleða væru taldir. Fyrir nokkrum dögum birtist gömul kona, í gömlum fötum, og byrjaði að moka frá þessum sleðum og sýsla í þeim. Svo sá ég áðan að hún var búinn að koma öðrum þeirra í gang. Ég átti leið þarna framhjá áðan og þá var hún búinn að festa sleðann. Ég stökk til og hjálpaði henni að losa hann og hlaut ,, þúsund þakkir" fyrir. Svo sá ég eftir henni í átt til jökla. Þetta var svolítið merkilegt. Allur útbúnaður hennar var frá svipuðum tíma og sleðarnir og jafn máður og þeir.

Ég setti inn myndir af skriðunni áðan og einnig af snjóflóði við Longyearjökulinn. Svo nokkrar af gömlum kolanámuleifum hér út með firðinum.

En jæja, best að klára kökugerðina fyrir afmælið í kvöld.

Kv. Olgeir

8:36

Klukkan 8:36 í morgun vaknaði ég við hljóð er líktist því helst að þota væri að fljúga hér niður Longyeardalinn. Ég leit út um gluggan og skymaði upp. Þá hafði stór klettur brottnað út Næss fjellet hér beint á móti og beint fyrir ofan Sverdrupbyen. Þetta var töluverð skriða með reyk og ryki. Ragga var rétt kominn út og sá þetta frá byrjun. Ég rétt náði mynd af restinni af rykinu. Set hana inn seinna í dag.

Í gær skrapp ég hér upp á Longyearjökulinn og kíkti á nokkur snjóflóð sem féllu í síðustu viku. Þetta eru heljarinnar flóð og greinilegt að maður þarfa að hafa hugan við veður og aðstæður. Einu af þessum flóðum kom skíðamaður af stað enn hann slapp sjálfur. Hann lét aftur á móti ekki vita af sér né flóðinu þannig að byrjað var að leita í því vegna skíðafara sem sáust inn í það.

Í gær skrapp ég líka út með firðinum að kíkja á tvö gömul kolaþorp. Skemmtilegar mynjar þar. Ég sá spor sem auðvelt var að ímynda sér að væru ísbjarnar spor. Þau voru stór og lágu frá sjónum og upp að kofa. En kannski var þetta eitthvað annað.

En núna er best að fara og athuga hvernig er að vera vélsleðaökumaður á fertugsaldri.

Kveðja Olgeir

Árnadaróskir

Til hamingju med fermingardaginn ykkar thann 1. apríl Una Hrefna, Tryggvi og Kristófer.

Til hamingju med afmælisdaginn í gær Inga mín :)

og svo eru thad afmælisbørn dagsins í dag:
Til hamingju amma Erla :)
sídast en ekki síst Olli minn :D Thad er ekki á hverjum degi sem fólk verdur 30 ára ;)


Klemme og kysse til ykkar allra,
Ragga

søndag 1. april 2007

Fallegt veður

Nú er fallegt veður, sól í heiði, og okkur langar út. En það er -20°c og vindur þannig að maður hefur það bara gott innandyra í dag. Maður sér myndir frá öðrum löndum og þar virðist vera komið vor. Ég held að vorið sé ekki handan við hornið hér. Að vísu er orðið bjart til 10 eða 11 á kvöldin og það verður reyndar aldrei alveg dimmt á nóttinni nú orðið. Samkvæmt dagatalinu verður ekki nótt eftir 2. apríl og miðnætursól frá 19. apríl.

Það var svolítið dýralíf fyrir utan eldhúsgluggan okkar í dag. Þrjár rjúpur og sex hreindýr. Lífið er nú sennilega orðið svolítið hart hjá þeim núna. Klakalag og snjór svo að erfitt er að kroppa. Um síðustu helgi rákumst við á hreindýr hér fyrir ofan sem sennilega lá fyrir dauðanum. Það hreyfðis sig varla þó maður labbaði alveg að því og virtist slappt. Mér datt í hug að senda því kúlu en það er ekki víst að sýslumaðurinn hefði haft skilning á því.

Ég er sem sagt kominn heim frá Svea og verð í frí næstu tvær vikur. Ég ætla að reyna að hreyfa mig eitthvað, labba og brúka sleðann.

En núna helst ég ekki lengur við hér við tölvuna vegna gólfkulda.

Kveðja Olgeir

fredag 30. mars 2007

79°Norður

Það kom að því, ég þveraði 79° norður :) Ferðalagið tókst með ágætum þrátt fyrir smá skakkaföll hér og þar. Við fengum frábært veður allan tímann og náttúrufegurðin var hreint ótrúleg. Við fórum gegnum dali og yfir hafís og jökla. Mér tókst á tveimur stöðum að fljúga af sleðanum, í bæði skiptin var ég að fara upp brattar brekkur. Bæði ég og sleðinn lifðum það af en önnur brekkan sem ég flaug af í er Kapp Schultz og er hún víðfræg fyrir að ganga af sleðum dauðum. Við fréttum það svo þegar við komum heim aftur að daginn áður hafði einn sleði gereyðilagst þar við að fara 20 veltur niður.

Við sáum för eftir ísbjörn sem hafði labbað upp brekku og runnið niður aftur, frekar fyndið, en við sáum enga birni. Aftur á móti sáum við heila hjörð af selum, sérstaklega á Tempelfjorden. Þegar við komum í Billefjorden keyrðum við fram á einn yfirgefinn nýborinn kóp. Honum hafði tekist að skríða marga metra frá holunni en við bárum hann þangað aftur. Hann var þó ekkert á því að vera þar og skreið aftur í burtu.

Þegar við komum að Skottehytta þá hittum við karl sem hafði orðið leiður á vinnunni sinni í Trondheim og ákveðið að ferðast á hundasleða um Svalbarða. Hann var með stóran sleða og 11 hunda fyrir honum. Hann var að koma úr Austfjorden og hafði ekkert sofið í 3 nætur fyrir ísbjarnaumgangi sem sýndu hundunum hans óþarflega mikinn áhuga. Einn björninn hafði brotið glugga á hyttunni sem hann dvaldist í en honum tókst að hrekja þá á brott. Með þessa vitneskju héldum við för okkar áfram yfir til Austfjorden og komum að lokum að Ovargangshytta þar sem við gistum. Þegar við vorum búin að koma matnum og bensíninu fyrir og kveikja upp í kamínunni héldum við áfram út á fjörðinn þar sem sýnatakan var fyrirhuguð.

Í stuttu máli sagt þá gekk vinnan vel fyrir sig og vorum við búin að öllu á um 3 tímum. Við höfðum neyðst til að skilja vinduna eftir heima, þar sem hún var of þung til að koma henni upp Kapp Schultz, og notuðum við snjósleða til að draga háfinn upp. Jörg smíðaði statíf til að halda reipinu yfir holunni og virkaði það glimrandi vel. Þrátt fyrir að allt hafi gengið eins og í sögu verður að hafa í huga að sýnataka á heimskautaslóðum er ekkert grín! Ef maður er ekki snöggur þá frýs sýnið bara fast við sigtið til dæmis og það er ekki erfitt að fá frostbit og kalsár. Að ég tala nú ekki um bara að koma sér á svæðið og að vera að vinna á ísbjarnaslóð, en það eru 3 ísbirnir á þessum slóðum og hafa verið í vetur en sem betur fer kom ekki til náinna kynna :p

Ég setti inn myndir úr ferðinni, endilega kíkja á það :)

Næsta feltferð er áætluð í vikunni eftir páska og verður þá farið yfir í Storfjorden sem er á austurströnd Spitsbergen. Þar er aðalheimili ísbjarnanna :) Spennandi..

Olli er kominn heim aftur og er núna kominn í frí í 2 vikur. Hann er búinn að vera í Svea í mánuð núna og er orðið tímabært að fá hann heim. Hann á svo stórafmæli í næstu viku og verður hvorki meira né minna en 30 ára. Í uppsiglingu er megapartý enda tilefnið ekki lítið :D

Kveðja,
Ragga

tirsdag 27. mars 2007

Á morgun fer ég í felt yfir til Austfjorden og Billefjorden. Þetta verður æsispennandi og tvísýn ferð en vonandi komumst við lifandi út úr þessu :p Við verðum í tvo daga og gistum í Overgangshytta sem er fyrir botni Austfjorden. Við byrjum sýnatökuna þar en förum svo yfir til Billefjorden daginn eftir. Við erum 4 allt í allt: ég, Claudia, Jörg og Stefan. Það er eins gott að ég fái e-ð í þessi sýni..ég segi ekki meir :/

Um síðustu helgi var skipt yfir á sumartíma og nú munar um tvo tíma á milli Noregs og Íslands. Til að réttlæta þessi skipti er því haldið fram að maður nýti dagsbirtuna betur.. fuss um svei.. fyrir mig er þetta bara leið til að shanghaia mann fyrr á fætur á morgnana og fyrr í rúmið á kvöldin :/ Hvað sem því líður þá er orðið bjart um 4 á morgnana núna og ekki dimmt aftur fyrr en milli 8 og 9 á kvöldin.

Olli og co í Svea leggja nú nótt við nýtan dag til að klára húsið en það á að afhenda það 1. apríl. Þetta verður því sennilega síðasta vikan þeirra þar í bili.

Kveðjur,
Ragga

lørdag 24. mars 2007

Komin helgi

Jæja, nú er komin helgi og ég komst heim frá Svea. Ég komst meira að segja heldur fyrr en áætlað var. Fluginu var flýtt vegna slæmrar veðurspár þannig að ég var kominn til Longyearbyen um hádegi í gær, sem sagt ögn lengri helgi.
Ég keypti mér loksins riffil í gær. Mauser 30.06 árgerð 1943, þetta er gamall þýskur herriffill í ágætu standi. Þetta eru algengustu riflarnir hér á Svalbarða. Sennilega einhver hundruð af þeim í umferð hér. Þannig að núna getur maður farið í göngu eða vélsleðatúra að vild.
Ég er ekki frá því að vorið sé aðeins farið að láta á sér kræla. Það ringdi í alla nótt og tók upp töluvert af snjó með tilheyrandi vatnselg og svelli. Núna er allt í krapa og það veitti sko ekkert af þessum 130 hestöflum í vélsleðanum til að komast yfir pittina á vélsleðaveginum milli Nybyen og miðbæjarins. En þetta varir sennilega ekki lengi því það á að fara í -16°c frost um miðja vikuna.
Það eru víst þessi veðurskilyrði sem valda því að hreindýrin geta farið að drepast. Þá myndast klakalag sem þau ná ekki að krafsa sig í gegnum til að ná í æti og þau svelta í hel.
Í gærkvöldi fórum við aðeins á föstudags hittinginn í UNIS og fengum okkur smá bjór. Á heimleiðinni komum við aðeins við á Karlsberger pub þar sem töluvert af vinnufélögum mínum voru. Það var vægast sagt fróðlegt að koma þarna inn. Flest allir voru mjög drukknir. Margir sennilega byrjað fljótlega eftir að þeir stigu út úr flugvélinni frá Svea. Enda kannski ekki furða þar sem menn misstu síðustu helgi úr vegna veðurs, sem er alvarlegt mál. Karlsberger pub er nokkuð merkilegur því að hann hefur víst mesta úrval áfengistegunda í Evrópu á einum bar.
Ég tók svolítið af myndum í Svea núna í vikunni og set þær hér inn.

Bless í bili.
Olgeir

fredag 23. mars 2007

Føstudagur :)

Jei, Olli kemur heim a eftir :) thad er ef vedrid vesnar ekki skyndilega eins og sidasa føstudag.

Vid erum a fullu nuna ad undirbua feltid sem verdur vonandi a thridjudaginn i næstu viku. Stefnan er tekin a Austfjorden og Billefjorden svo thetta er løng ferd. Vid verdum 5 talsins og thad er otrulega mikid af doti sem fylgir okkur thannig ad allir verda ad hafa sleda i eftirdragi a velsledunum. Vonandi verdur lika nogur is a fjørdunum svo vid getum farid beint yfir en thurfum ekki ad krækja fyrir tha thvi tha verdur ferdin mikid mikid lengri :/ En thetta er audvitad allt had vedri svo thad er allt eins vist ad vid førum ekki fyrr en eftir paska.

Kvedja,
Ragga

onsdag 21. mars 2007

Og thetta er helst i frettum..

Tekid beint upp ur Svalbardposten:

En tilreisende mann i 50-årene urinerte i trappene og gangen på ett av overnattingsstedene i Nybyen mandag kveld.

– Han måtte tilbringe resten av natta i arresten og fikk 4.000 kroner i bot for dårlig oppførsel, sier vakthavende hos Sysselmannen, Petter Bråten.

Thad eru engir smamunir sem komast i frettirnar herna sko!

søndag 18. mars 2007

Jæja

Loksins er ég í tölvusambandi í nokkra tíma. Ég komst ekki heim frá Svea fyrr en í hádeginu í dag og fer aftur í fyrramálið. Á föstudag gerði svaka snjókomu og rok, sem sagt blind byl sem stóð fram á aðfaranótt sunnudagsins. Ekkert flug þessa daga, bara vinna.
Við fljúgum til Svea með 18 sæta Dornier vél og erum um 15-20mín að fljúga. Oftast er flogið um 2-4 sinnum á dag milli Longyearbyen og Svea á vegum Store Norske Spitsbergen Grubekompani. Flugið gengur nú yfirleitt vel fyrir sig, reyndar oftast smá ókyrrð yfir fjöllunum.
Við erum að klára pípulagnir í nýjan íbúðabragga sem er verið að byggja í Svea. Lífið í Svea er svona nánast eingöngu að vinna og sofa, jú og borða.
Þarna er stanslaus kolaframleiðsla allt árið um kring. Ég hef nú ekki komið inn í námurnar en þær standa saman af göngum sem eru nokkrir kílómetrar að lengd. Út um gluggann á herberginu mínu sé ég færiband sem stendur útúr fjallshlíðinni og það er endinn á flutningsgöngunum. Þar streyma út kol allan sólarhringinn. Þeim er svo mokað á dráttarvagna í yfirstærð, dregna af Volvo vörubílum niður að Kapp Amsterdam og sturtað á stóran tipp. Þetta er keyrt allan sólarhringinn. Frá tippnum á Kapp Amsterdam eru svo útskipunarfæribönd sem geta lestað 2000tonn á klukkustund um borð í skip.
Rafmagnið í Svea er framleitt með disel afli. Það eru fjögur stykki V-16 Catepillar sem sjá um það. Þær eru í stærri kanntinum sennilega um 3-4 metrar á hæð og 6-8m á lengd. Ég veit ekki ennþá kw tölurnar á þeim.
Stærsta jarðýta norður Evrópu á að vera í Svea, en hún er eins og Jesú, það tala allir um hana en enginn hefur séð hana.
Jæja, best að gera sig kláran í næstu törn.
Kveðja Olgeir

lørdag 17. mars 2007

Gleðilegan dag heilags Patriks :)

Annars er bara afleitt veður hérna hjá okkur og því var ferðinni til Barentsburgar frestað sem og fluginu hans Olla frá SVEA þannig að hann er fastur þar. Hann kemur því sennilega ekki aftur hingað fyrr en næstu helgi :/ Hann missir því af öllu fjörinu hérna .. bara eintóm leiðindi..

Kveðja,
Ragga

fredag 16. mars 2007

bara bla..

A morgun verdur farin ithrottaferd til Barentsburgar og verdur keppt i hinum ymsu greinum. Medal annars blaki, fotbolta, inne bandy og kørfubolta. Mer skilst ad nu eigi ad hefna thar sem undanfarin ar hafi Russarnir rustad Longyearbyen-lidunum. Vid Olli vorum ad spa i ad slast i før med ithrottaalfunum og nota ferdina thar sem svo margir eru ad fara. Vedurspain er tho frekar slæm svo thad er von a øllu.

Um kvøldid er svo hid alræmda eldhus-til-eldhus party thar sem allur Nybyen flakkar a milli eldhusa. Hvert eldhus hefur sitt thema og bydur upp a drykki i samræmi vid thad. Eldhusin i okkar husi verda med irskt thema thar sem thad verdur nu dagur heilags Patriks.

Olli kemur ur utlegdinni nuna i eftirmiddaginn og verdur stefnan tekin beint a byssubudina thar sem leyfid langthrada kom loks i vikunni.

Annars bara ha det bra :)
Kvedja,
Ragga

tirsdag 13. mars 2007

Svea

Í gær komumst við loks til Svea að taka sýnin okkar. Ferðin tók um 2 tíma í hvora átt með viðgerðarhléum og kaffistoppi. Eftir smá basl við að finna allt sem átti að fara með komumst við loks af stað um 10 leytið og vorum komin aftur í UNIS klukkan 7 um kvöldið. Með í för var ótrúlega pirrandi myndatökuliðið frá þýsku örsjónvarpsstöðinni. Oftar en ekki þurtum við að bíða eftir því að þeir gerðu allt klárt þannig að þetta hefði sennilega gengið heldur hraðar fyrir sig ef þeir hefðu ekki verið með. Sem betur fer voru þeir samt með sér barnapíu sem passaði upp á að þeir færu sér ekki á voða.

Að öðru leyti gekk ferðin bara vel og ég fékk mín sýni :) Þetta er órtrúlega skondnar aðstæður að vinna við satt best að segja; handknúin vinda, vatnið hitað á prímus, sýnin sett í hitabrúsa og labbinn var á einum sleðanum. Háfurinn var samt heldur háþróaðri heldur en ég á að venjast enda var hann frá hinni ofurháþróuðu Germaníu - án reyndar flæðismælis sem mér finnst óskiljanlegt. Ég er gersamlega búin í bakinu eftir þessa sleðakeyrslu og sýnatökubogur en þetta var samt nokkuð gaman :) Ég set inn myndir af þessu á eftir.

Olli fór til Svea í gær; reyndar ekki á tilsettum tíma þar sem þeir misstu af vélinni. Hann fór því ekki yfir fyrr en seinni partinn.

Kveðja,
Ragga

søndag 11. mars 2007

Helgin

Þá er síðasti dagur Solfestuka senn á enda og það er óhætt að segja að vikan hafi verið viðburðarík. Í gær var haldin "Ta sjansen" sem er sleðakeppnin ógurlega þar sem furðusleðum af ýmsum toga er beitt. Markmiðið er að sjálfsögðu að reyna að komast sem hraðast niður brekkuna en einnig eru veitt verðlaun fyrir frumlegustu hugmyndina, mestu skemmtunina og besta klúðrið/krassið. Skemmst er frá því að segja að "The arctic bunny" (sem sagt ég, Charlotta og Doro) fékk verðlaun fyrir besta krassið þar sem sleðinn okkar datt í sundur á fyrstu sekúndunni og þá gripum við á það ráð að renna okkur niður á pörtunum; ég á einangrunardýnunni og þær á hliðunum sem voru gerðar úr pappa og plastpokum. Þegar það virkaði ekki lengur hlupum við restina.

Margir skemmtilegir sleðar voru þarna á ferðinni, meðal annars finnskt gufubað, baðherbergi og gamall flugvallaþjónustubíll. Sleðinn sem náði mestum hraða var búinn til úr vélsleðaskíðum, timbri og e-u ótilgreindu dóti.

Myndir af herlegheitunum eru komnar inn í myndaalbúmið. Einnig setti ég inn myndir frá tónleikunum sem ég fór á á föstudaginn þar sem hljómsveitin Schmeerenburg var að spila. Hörku lókal rokkband þar á ferðinni.

Á morgun verður svo gerð tilraun til að fara í sýnatöku til SVEA og vonandi heppnast það svo ég þurfi ekki að bíða lengur eftir þessum sýnum :p

Kveðja,
Ragga

P.s. Fleiri myndir frá Ta sjansen er hægt að sjá hér: http://picasaweb.google.com/jonas.ellehauge

fredag 9. mars 2007

Uppruni svalbörðsku ístrunnar

Eftir töluverðar rannsóknir hef ég komist að því hvar upptök svalbörðsku ístrunar eru.
Upptökin eru í mötuneytinu í Svea. Maður kemur ekki svangur frá Svea. Við byrjum daginn á morgunverði um klukkan 6:30, hádegismatur klukkan 11:30, middag klukkan 16:00 sem er aðalmáltíðin oftast kjöt og svo kvöldmatur klukkan 20:30. Og svo er náttúrulega tekin dugnaðarsopi inn á milli. Aldeilis fínt í alla staði.
Já og þess má geta að allt lambakjöt sem borðað er í Svea er íslenskt, merkilegt það.
Ég er sam sagt kominn heim frá Svea í bili, fer aftur þangað á mánudagsmorgun og verð vikuna.
Svona vinnulega séð er betra að vinna í Svea heldur en hér í Longyearbyen, minna stress einhvenrveginn. En ókosturinn er að vera ekki heima hjá sér.
Ég segi meira frá Svea síðar, er farinn að sofa.
Kveðja Olgeir

torsdag 8. mars 2007

Sólin kom sem sagt ekki í dag. Eða réttara sagt þá kom hún en við sáum hana bara ekki fyrir skýjum :I Hátíðarhöldin voru samt mjög skemmtileg og kakan var bara nokkuð góð. Seinnipartinn var svo doktorsvörn í líffræðideildinni. Það var mjög áhugaverður fyrirlestur um far gæsa og áhrif þeirra á gróður á beitarsvæðum.

Olli var orðin lasinn og var bara rúmliggjandi með hita og beinverki. Hann kemur heim seinnipartinn á morgun. Einn af vinnufélögum hans var líka lasinn með ælupest og leiðindi.

Ég setti inn örfáar myndir en annars bara tíðindalítið á vesturvígstöðum.

Kveðja,
Ragga

onsdag 7. mars 2007

Solfestuka

Ég hef alveg gleymt að minnast á að nú er Solfestuka í Longyearbyen. Sólin á sem sagt að mæta á morgun klukkan eitt á gömlu sjúkrahúströppurnar. Reyndar er ekkert sjúkrahús þar lengur eða hús yfir höfuð en það er ekkert verra. Af þessu tilefni eru hátíðarhöld og tónleikar og guð veit hvað alla vikuna. Ég fór tónleika í gær sem haldnir voru á Barentzpub. Þar var einhver svalbörðsk dama að syngja upppoppuð námumannalög við undirleik strengjahljóðfæra. Svo sem ekki alslæmt en höfðaði ekki alveg til mín. Eitt lagið var meira að segja með smá "máva" parti.. gaman að því. Á þessum bar er hægt að kaupa Singha bjór (hver hefði trúað því??). Ég varð auðvitað að smakka hann og hann er alveg jafn góður hér á Svalbarða eins og í Thailandi :D

Á morgun verður svo kaka í Lompet senter og vöfflur með brúnosti :) Það er óttalega gott, ótrúlegt en satt. Á laugardaginn verður svo haldin sleðakeppnin "Ta sjansen" og eru vegleg verðlaun í boði. Við Charlotta og Doro ætlum kannski að taka þátt og búa okkur til sleða.

Olli kemur heim aftur á föstudaginn frá SVEA. Hann er bara nokkuð hress með veruna þarna og vinnufélagana. Hann sá meira að segja sólin í dag og eru alveg 14 dagar síðan hún sást fyrst þarna megin fjalla.

Kveðja,
Ragga

mandag 5. mars 2007

bara bla

Ég fór sem sagt ekki til SVEA í dag eins og til stóð þar sem það var ekkert ferðaveður. Við förum því ekki fyrr en á mánudaginn næsta. Það verður bara að hafa það og vonandi verða bara komnir fleiri litlir Pseudocallar fyrir mig að veiða. Það munar samt sennilega ekki svo miklu milli vikna í augnablikinu.. en jám..

Fluginu hans Olla var frestað til klukkan 6 í kvöld þannig að hann var bara áfram í því að bera þungt í dag. Ég heyrði í honum áðan þannig að það virðist vera gsm samband þarna sem reyndar lá niðri í morgun. Hann fékk herbergi í húsi ekki ósvipuðu og við erum í núna nema það er kannski meira í verbúðarstíl. Þar að auki er stór messi fyrir alla þar sem matur er fram borinn í öll mál.

Þýska myndatökuliðið sem var hérna í byrjun janúar er mætt aftur til að halda áfram að elta Kai sem er einn af líffræðinemendunum. Þeir áttu sem sagt að fara með okkur í feltferðina til SVEA í morgun þar sem Kai er hluti af þessum hóp sem er að fara. En þar sem við fórum ekki ákvað Fred (sem er yfir öryggismáladeildinni) að best væri að þeir færu á smá vélsleðanámskeið. Þetta tökulið er að gera heimildamynd um stúdenta sem fer á framandi slóðir fyrir einhverja ofurlitla þýska discovery kabalstöð sem enginn af Þjóðverjunum hérna hefur heyrt um. Kai heldur því samt fram að hún sé mjög stór! Gaman að því.

og já.. ég setti inn örfáar myndir.

Kveðja,
Ragga

søndag 4. mars 2007

Sunnudagur í leti

Þá er helgin búin og við Olli erum að búa okkur undir að ferðast til SVEA á morgun, í sitt hvoru lagi þó. Helgin var frekar letileg. Á laugardeginum tók Olli smá hring á sleðanum en ég reyndi að vinna e-ð á meðan en auðvitað endaði það bara í hangsi. Um kvöldið var okkur svo boðið í brakke 4 í smá kökuboð. Charlotta og hennar eldhúsfélagar eru ótrúlega iðnir við að baka í tíma og ótíma. Kökurnar smökkuðust vel og ekki var verra að hafa smá bjór með :p Við fylgdumst með tunglmyrkvanum þangað til þurftum nauðsynlega að drífa okkur á Huset til að þurfa ekki að borga inn. Ég sá hann því bara næstum því en Olli sá hann alveg þar sem hann nennti ekki að fara með okkur.

Í dag var svo planið að fara fyrir Adventdalinn og að minnismerki sem er í fjallshlíðinni hinu megin og var reist í minningu fólks sem fórst með rússneskri flugvél á sama stað fyrir nokkrum áratugum. Við ætluðum að slást í för með Laurel þar sem hún hafði leigt sér riffil. Af þessum túr varð þó ekkert í þetta skiptið þar sem veðrið var afleitt í allan dag.

Strákarnir á efri hæðinni höfðu ætlað til Barentsburgar í dag og voru búnir að leigja sér sleða og galla og kaupa sér fulla brúsa af bensíni en þurftu að hætta við. Þeir reyndu þó að fara en hættu við þegar þeir komu að bæjarmörkunum þar sem vegurinn endar.

Úr því að ég var að minnast á bensín og sleða þá má til gamans geta að sleðinn okkar eyðir 30 l á hundraði! Geri aðrir betur.. Þetta var þó bara fyrsta mæling og ætli við gerum ekki eins og hafró með loðnumælingarnar, s.s. höldum áfram að mæla þangað til hagstæðar niðurstöður fást :p

Ha det bra :)
kveðja
Ragga